Fréttir
Sambandið beiti sér fyrir lækkun á innheimtuþóknun til ríkisins vegna innheimtu útsvars

22. sep. 2015

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri hefur sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf er varðar innheimtuþóknun til ríkisins vegna innheimtu útsvars og var bréfið lagt fram á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í dag.

Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir því að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir því gagnvart ríkissjóði að innheimtuþóknun til ríkisins vegna innheimtu útsvars verði lækkuð og taki mið af þóknuninni eins og hún var upphaflega þegar ríkið tók þetta verkefni að sér.  Lögð er áhersla á að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir því að þessi lækkun komi til framkvæmda strax í byrjun næst árs.

Haraldur L. Haraldsson segir að meðal þess sem fram hafi komið í skýrslu Capacents á úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins hafi komið fram að að þóknun til ríkisins vegna innheimtu útsvars hefur hækkað verulega.  Skýringin á því er að innheimtuþóknun sem hlutfall af því sem innheimt er hefur haldist óbreytt, þ.e. 0,5%, á sama tíma og hlutfall útsvars hefur hækkað umtalsvert. 

„Það verður að telja eðlilegt að hlutfall þóknunar til ríkissjóðs lækki í samræmi við hækkun á álagningarprósentu útsvars.  Ef talið er að þóknun til ríkissjóðs, 0,5%, hafi staðið undir kostnaði ríkissjóðs við að innheimta útsvar fyrir sveitarfélög þegar hámarks útsvarsprósenta var 7,5% má leiða að því líkum að ríkissjóður sé að hafa góðan hagnað af því að innheimta útsvar þegar hámarksútsvar er komið upp í 14,48% með óbreyttu innheimtuhlutfalli.  Það verður að teljast réttmæt krafa sveitarfélaga að þetta hlutfall verði lækkað, ekki síst með hliðsjón af erfiðri fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga.  Með vísan til þessa liggur beint við að sveitarfélögin  krefjist þess að innheimtuþóknunin fari í 0,25% miðað við að hámarks- útsvar, sem nú er 14,48%,  en var 7,5% þegar innheimtuþóknunin var ákveðin 0,5%.  Það getur ekki verið rétt að ríkissjóður sé að hagnast á því að innheimta útsvar fyrir sveitarfélögin. Segir Haraldur í bréfinu sem lagt var fram í dag.

Haraldur bendir einnig á að frá því að samkomulagið var gert hefur átt sér stað mikil breyting á allri tækni sem notuð er við innheimtuna og  að sýslumannsembættum, sem m.a. hafa annast innheimtuna, hefur fækkað eða þau sameinuð eins og raunin hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu.