FréttirFréttir

  • IMG_8255

Opnunarhátíð í Skarðshlíðarskóla

1. nóv. 2018

Það ríkti mikil gleði í Skarðshlíðarskóla þegar nemendur, kennarar og aðrir gestir opnuðu skólann formlega. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri óskaði börnunum innilega til hamingju með nýja skólann sinn og sagðist hlakka til að fylgjast með þeim vaxa og dafna í fallegum skóla í fallegu umhverfi. Skólinn þykir afar bjartur og skemmtilegur og mikið um opin rými. Fjórði bekkur skólans söng lög við opnunina auk þess sem nemendur úr 4. og 5. bekk fluttu ljóð um skólann sinn. Ljóðið var svo formlega afhent skólastjóra Skarðshlíðarskóla, Ingibjörgu Magnúsdóttir. Fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar spjallaði við nemendur á léttu nótunum og hvatti þau til að mikilla afreka og skemmtunar í sínu skólastarfi. Þakið rifnaði svo nánast af nýja skólanum þegar hafnfirski gleðisöngvarinn Jón Jónsson mætti á svæðið og tók nokkur lög. Hann talaði meðal annars um mikilvægi þessa að hrósa og gefa af sér.

Skólaljóð


Skarðshlíðarskóli er skólinn minn
Þar er gott að vera
Ég vil vera þar um sinn
Því hér er margt að gera.

Við lesum, skrifum og lærum margt
Og leikum okkur saman
Starfsfólkið er rosa smart
hjá okkur er sko gaman.

Mílan bætir okkar styrk
Og léttir okkar lund.
Í félagsskap við erum virk
Og eigum góða stund.

Í skóla við lærum að fallbeygja
og leggja mat á borð.
Samvinna, vinátta og þrautseigja
eru okkar orð.


Sérkenni skólans er áhersla á sviðslitir (dans og leiklist) í kennslu

Skarðshlíðarskóli er nýjasti grunnskóli sveitarfélagsins og tók hann til starfa haustið 2017 í bráðabirgðahúsnæði en flutti nýverið í glæsilega nýbyggingu í Skarðshlíð í Hafnarfirði. Í fyrsta áfanga uppbyggingar eru nemendur skólans í 1. – 4. bekk, í heild 97 nemendur í sex bekkjardeildum. Skólinn er áttundi grunnskóli bæjarins og þegar hann verður fullbyggður verður hann tveggja hliðstæðu grunnskóli með um 400-500 nemendur. Gert er ráð fyrir fjögurra deilda leikskóla fyrir 80-90 nemendur og útibúi frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem getur annað allt að 200 nemendum. Sérstaða skólans er að leik-, grunn- og tónlistarskóli verða reknir á sama stað og áhersla verður á sviðslistir (dans og leiklist) í kennslu. Fyrsta áfanga framkvæmdarinnar er lokið og er gert ráð fyrir að sumarið 2019 verði húsnæði fyrir leikskólann tilbúið og að ári síðar, eða sumarið 2020, verði skólinn fullbyggður, þ.e. grunn- og leikskóli, tónlistarskóli og íþróttahús. Allar byggingarnar eru hannaðar samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar en í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan allra í fyrirrúmi.

Sjá fleiri myndir frá opnunarhátíðinni á Facebook-síðu Hafnarfjarðarbæjar