FréttirFréttir

  • VimaMai2019

Hafnfirsk ungmenni eru til fyrirmyndar

3. jún. 2019

Niðurstöður stórrar landskönnunar varðandi vímuefnaneyslu gefa til kynna að hafnfirsk ungmenni séu til fyrirmyndar og að flest þeirra snerti ekki vímuefni. Um 85% nemenda taka þátt í könnuninni hverju sinni en hún var lögð fyrir nemendur nú í febrúar.

Á hverju ári taka nemendur í 8.-10. bekk grunnskóla þátt í stórri landskönnun varðandi vímuefnaneyslu sem Menntamálaráðuneytið stendur fyrir . Það er Rannsóknir og greining sem framkvæmdir rannsóknina og stendur hverju sveitarfélagi til boða að kaupa sérstaka skýrslu um niðurstöður síns sveitarfélags.

Niðurstöður fyrir Hafnarfjörð jákvæðar

Í stuttu máli má segja að hafnfirsk ungmenni séu til fyrirmyndar og flest snerta ekki vímuefni. Þegar um börn eru að ræða þá eru vímuefni iðulega skilgreind nokkuð vítt eða allt frá rafrettu, sígarettu og upp í enn sterkari efni eins og marijúana. Afar litlar tóbaksreykingar eru, þeim sem prufa munntóbak fækkar og sjaldan eða aldrei síðan mælingar hófust hafa jafn fá ungmenni verið að fikta með áfengi. Hinsvegar virðist sem rafrettunotkun sé nokkur en það er bannað samkvæmt lögum að selja eða afhenda börnum þær. Erfiðlega gengur að ná árangri gagnvart þeim sem eru að fikta með marijúana en að jafnaði er 5-7% nemenda í 10. bekk síðustu ár að neyta þessa efnis.

Helstu niðurstöður rannsóknar má sjá hér

Hver grunnskóli í Hafnarfirði fær niðurstöður könnunar og innanhúss er unnið áfram með niðurstöðurnar.