Fréttir
  • Austurgata2

Austurgatan með söguskilti og sögugöngu í Wappinu

6. júl. 2020

Nýtt söguskilti sem reifar sögu Austurgötunnar í Hafnarfirði var vígt við fámenna en góða athöfn á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga þann 17. júní síðastliðinn. Á sama tíma var sett í loftið ný og áhugaverð söguganga um Austurgötuna. Austurgötuhátíðin hefði átt 10 ára afmæli 17. júní en sökum samkomutakmarkana var hátíðinni frestað til 2021. Söguskiltið, sem stendur neðan Fríkrikjunnar, er unnið af Byggðasafni Hafnarfjarðar og er það með sögulegum myndum og texta um götuna á íslensku og ensku. Rafræn söguganga er samstarfsverkefni Wappsins og Byggðasafns Hafnarfjarðar. 

Austurgata1

Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918 í svokölluðu Austurhverfi

Á sögugöngu um Austurgötuna er hægt að upplifa "gamla Hafnarfjörð" á skemmtilegan hátt og fræðast um sögu og menningu bæjarins um leið. Þessi leiðsögn er skreytt myndum frá gamla tímanum. Heilsubærinn Hafnarfjörður og og Wapp - Walking app hafa samstarf um birtingu gönguleiða í Hafnarfirði í leiðsagnarappinu Wappinu.Þegar Hafnarfjörður fékk  kaupstaðarréttindi árið 1908 var ekkert skipulag á byggðinni og fáar eiginlegar götur í bænum. Þremur árum síðar var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum og slóðum í Hafnarfirði nöfn og tölusetja hús í bænum. Varð úr að nefndarmenn gáfu flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð hverfi og hús númeruð innan þeirra. Á því svæði sem Austurgatan stendur í dag var svokallað Austurhverfi á þeim tíma. Austurgatan var lögð á árunum 1914-1918 en í dag standa við götuna 15 hús sem eru eldri en gatan sjálf. Húsin við Austurgötuna mynda einstaklega heildstæða götumynd byggðar frá upphafi 20. aldar og þó að gatan hafi byggst upp að mestu á þessum árum er gerð og stíll húsanna mjög fjölbreyttur. 

Leiðir í Hafnarfirði í boði Hafnarfjarðarbæjar

Nokkrar gönguleiðir í Hafnarfirði eru í wappinu og eru þær allar í boði Hafnarfjarðarbæjar. Smellt er á "kort" þegar leiðin hefur verið opnuð og á "já" við spurningunni "Viltu kaupa þessa ferð?" Leiðin kemur þá upp endurgjaldslaust.

  • Austurgata, söguganga
  • Núvitundarganga við Hvaleyrarvatn
  • Hvaleyrarvatn og Stórhöfði
  • Brandaraganga í miðbænum
  • Söguganga um Hafnarfjörð

Leiðirnar eru með kortum, gps hnitum, ljósmyndum og upplýsingum á íslensku og ensku.

Vonast er til að þetta samstarf auðveldi Hafnfirðingum sem og öðrum að nálgast upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir, sögulegan fróðleik um menningarminjar og útivistarmöguleika í Hafnarfirði og hvetji til aukinnar hreyfingar og útiveru.

Um Wappið

Wappið er stafrænn gagnagrunnur leiðarlýsinga á Íslandi sem er miðlað í gegnum app fyrir Iphone og Android snjallsíma. Leiðarlýsingarnar eru um allt land, með GPS ferlum og ljósmyndum og er miðlað á ensku og íslensku til notenda. Leiðarlýsingum er hlaðið á símann og þær notaðar án þess að vera í gagnasambandi. Stokkur ehf. forritar Wappið og Samsýn ehf. sér um kortagrunninn fyrir Ísland.