Fréttir
  • Hjordis

Núvitund er áhugaverð aðferð í verkfærakistu lífsins

29. nóv. 2019

Hjördís Jónsdóttir er mikil hugsjónamanneskja og með hjartað á réttum stað. Hjá henni er fólkið í forgrunni og ung að árum ákvað hún að umönnun og uppeldi væri hennar köllun í lífinu. Í dag starfar Hjördís sem deildarstjóri 1. – 5. bekkjar í Áslandsskóla og hefur blómstrað í störfum sínum hjá grunnskólum Hafnarfjarðar þar sem hún hefur alið manninn allt frá útskrift. Hjördís ólst upp á Sauðarkróki og hafði þaðan greiðan aðgang að sveit ömmu og afa og varði þar öllum sínum sumrum sem ung stúlka hlaupandi innan um kindur, kýr og hesta. Hún hafði þann draum að verða sjúkraþjálfi en eftir að hafa tekist á við móðurhlutverkið ung að árum ákvað hún að leggja fyrir sig kennarastarfið.

Í þessu viðtali Vitans segir Hjördís meðal annars frá sjálfri sér, frá köllun sinni í kennarastarfið, hornstöðum starfsins í Áslandsskóla og rannsóknarverkefni sem snýr að innleiðingu á núvitund í skólastarfið. Rannsóknarverkefni sem mun án efa sýna mælanlegan jákvæðan árangur til lengri tíma litið en tilfinningalegur árangur innleiðingar virðist þegar orðinn sýnilegur.

Hlusta á þáttinn

Innleiðing á núvitund í skólastarfið í Hafnarfirði

Hjördís er ein þeirra sem af persónulegum ástæðum fór að tileinka sér núvitund og hugleiðslu og finna þannig eigin leiðir til að takast á við allar þær áskoranir sem lífið býður upp á. Hún lítur á núvitund og hugleiðslu sem góð tæki og tól í verkfærakistu lífsins. Hjördís er ein þeirra sem staðið hefur í brúnni við innleiðingu á núvitund í skólastarfið hér í Hafnarfirði, bæði í eigin skóla og víðar í samstarfi við fleiri kennara, með því að dreifa þekkingu sinni og reynslu til annarra skóla og skólastiga í gegnum sameiginlegt verkefni. Núvitund í skólastarfi er orðinn fastur liður í Áslandsskóla hjá ákveðnum árgöngum og í ákveðnum fögum en draumurinn er að núvitund og hugleiðsla verði hluti af heildinni í öllu starfi skólans.

Viðtöl við áhugaverða einstaklinga sem starf í þágu sveitarfélagsins

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict.