FréttirFréttir

  • Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Mánudagspistill bæjarstjóra

25. mar. 2013

Í dag fagnar leikskólinn Hlíðarberg 20 ára afmæli og var mikið um að vera á leikskólanum. Langar mig að nota þetta tækifæri til að óska starfsfólki skólans og öllum frábærum krökkunum sem þar eru til hamingju með daginn.

Á laugardaginn voru opnaðar í Hafnarborg tvær nýjar sýningar þar sem einstök skynjun, andleg leit og miðlun innra ljóss eru leiðarstef. Á efri hæð safnsins var opnuð samsýningin Tilraun til að beisla ljósið, þar sem sýnd eru verk íslenskra samtímalistamanna og heilara, en í Sverrissal sýning á verkum Erlu Stefánsdóttur, sjáanda, sem ber yfirskriftina Skynjun mín. Nánar um þessar lesa um þessar sýningar á www.hafnarborg.is

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Hafnarborg sl. þriðjudag. Þar komu fram flottir fulltrúar úr skólum bæjarins. Það er ótrúleg upplifun að hlusta á þessa krakka lesa og gaman að sjá hvað þau eru örugg í allri framkomu. Bjarkey Líf Halldórsdóttir úr Hvaleyrarskóla sigraði að þessu sinni. Í öðru sæti varð Agnes Líf Ásmundsdóttir úr Lækjarskóla og í þriðja sæti var Elísa Ósk Kristinsdóttir úr Setbergsskóla. Til hamingju til ykkar og allra sem tóku þátt og  sérstakir þakkir til Ingibjargar Einarsdóttur sem stýrði keppninni 17 árið í röð.

Í vikunni sótti ég og þrír aðrir starfsmenn námskeið í Brussel sem rataði á forsíðu Fjarðarpóstsins. Ferð eins og þessi er kostuð af Evrópusambandinu og  er þannig til komin að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og  embættismenn sveitarfélaga gátu sótt um þátttöku á námskeiðið til Evrópusambandsins. Markmið ferðarinnar var að kynna byggðastefnu ESB og aðkomu sveitarstjórnarstigsins að henni undir yfirskriftinni: Þátttaka sveitarfélaga í byggðastefnu Evrópusambandsins.

Það er samdóma álit okkar sem tókum þátt að námskeið eins og þetta ætti eftir að nýtast okkur vel. Það eykur þekkingu okkar á innviðum Evrópusambandsins, uppbyggingu þess, uppbyggingu stjórnsýslu sambansins og mögleika sveitarfélaga til að sækja um styrki til ólíklegustu verkefna. Jafnframt fengum við upplýsingar um samningaviðræðurnar sjálfar, gafst tækifæri til að hitta starfsfólk sendiráðs Íslands í Brussel og starfsfólk sveitarfélagaskrifstofa annarra landa í Brussel og fræðast um starfsemi þeirra svo fátt eitt sé nefnt.

En vorið er framundan og eitt merki þess er að Hafnarfjarðarbær hefur auglýst eftir ungu fólki til sumarstarfa.  Auglýsinguna má finna á vef bæjarins, umsóknarfrestur er til 12. apríl og sótt er um rafrænt á vef bæjarins.

Framundan eru páskarnir og kærkomið frí sem tilvalið er að nota til útivistar í fallegu upplandi bæjarins og rölta um í bænum og njóta þess sem bærinn býður upp á.

Gleðilega páska!

Með kveðju,

Guðrún Ágústa