FréttirFréttir

Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar

20. mar. 2013

Bjarkey Líf Halldórsdóttir, Hvaleyrarskóla, er sigurvegari á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði sem fram fór í Hafnarborg í gær. Í öðru sæti varð Agnes Líf Ásmundsdóttir, Lækjarskóla, og í þriðja sæti var Elísa Ósk Kristinsdóttir úr Setbergsskóla.

Lokahátíðin er endir á löngu ferli æfingar og þjálfunar í framsögn og tjáningu sem hófst á degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl. í öllum sjö grunnskólum bæjarins, alls 16 nemendur í 7. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar og Álftanesskóla. Á lokahátíðinni voru tveir fulltrúar frá hverjum skóla sem lásu upp bundið og óbundið mál. Rithöfundar keppninnar í ár voru Friðrik Erlingsson og Þóra Jónsdóttir. Mennta- og mennningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, afhenti jafnframt öllum keppendum viðurkenningu fyrir þátttökuna.

Ingibjörg Einarsdóttir, skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, stýrði hátíðinni að venju en þetta var í 17. skipti sem keppnin var haldin. Jafnframt þakkaði Sveinbjörn Njálsson, skólastjóri Álftanesskóla, samstarfið síðastliðin 17 ár en á næsta ári munu þau taka þátt í hátíðinni með Garðabæ.

Myndin: Frá vinstri séð, Elísa, Agnes og Bjarkey.