FréttirFréttir

  • Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Mánudagspistill bæjarstjóra

18. mar. 2013

Á föstudaginn flutti ég erindi á  landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, erindi sem fjallaði um hvað við höfum lært  núna þegar líður að lokum kjörtímabilsins og hvað við gætum haft að leiðarljósi á nýju tímabili. Ég fékk það hlutverka að skoða þetta sem „ gamalreyndur“ sveitarstjórnarmaður þrátt fyrir að hafa einhvern vegin aldrei litið þannig á mig.  Ég fór vítt yfir sviðið og ræddi meðal annars um upplifun mína af bæjarstjóra- og bæjarfulltrúastarfinu og langar migí þessum pistli að deila hluta af erindinu með ykkur.

Það er dýrmæt reynsla og mikill heiður að vera bæjarstjóri í Hafnarfirði og mikil ábyrgð – ekki síst að vera fyrsta konan sem tekur þetta starf að sér.  Það skiptir nefnilega máli fyrir stráka og stelpur að sjá að bæði konur og karlar geti gegnt hvaða störfum sem er.

Þau sex ár sem ég hef verið bæjarfulltrúi hafa verið afskaplega skemmtileg og lærdómsrík. Fyrstu fjögur árin var ég hluti af minnihluta.  Sem fulltrúi í minnihluta gat ég staðið föst á hugmyndafræði og stefnu míns flokks. Tekið þátt í að vinna að góðum málum með fulltrúum meirihluta og minnihluta þegar mögulegt var og með sama hætti að vinna ötullega gegn tillögum og hugmyndum sem voru á skjön við þá hugmyndafræði og stefnu sem minn flokkur stendur fyrir. Ég var hins vegar ekki kosin til þess eins að vera á móti – bara af því að ég tilheyrði minnihluta.

Haustið 2008 tókum við m.a. meðvitaða ákvörðun  um að vinna með þáverandi meirihluta við gerð fjárhagsáætlunar. Það var alls ekki auðveld ákvörðun en í þeim aðstæðum sem þá sköpuðust töldum við það okkar ábyrgð og skyldu að setjast niður og vinna með þáverandi meirihluta. Eftir síðustu kosningar hef ég starfað í meirihluta með Samfylkingunni, fyrst sem bæjarfulltrúi og frá síðasta sumri jafnframt sem bæjarstjóri.

Aðstæðurnar í pólitíkinni í dag og síðustu misseri hafa verið afar krefjandi – en ég hef líka sagt að ef við sem stjórnmálamenn stöndum okkur við þessar aðstæður þá getum við  ráðið við nánast hvaða aðstæður sem er. Í mínum huga er ekki síður spennandi að vera í pólitík í dag en þegar allt átti að heita að léki í lyndi í góðærinu. Verkefnin eru krefjandi og erfið – en jafnframt afar skemmtileg og lærdómsrík.

Sem sveitarstjórnarfólk gegnum við ákveðnu þjónustuhlutverki – sem stundum getur bara verið ótrúlega flókið. Við þurfum að hafa skýra og markvissa forgangsröðun verkefna , það er lífsnauðsynlegt að við höfum hæft, metnaðarfullt, áhugasamt og ánægt starfsfólk til að vinna með okkur að því að hrinda ákvörðunum sem teknar eru í framkvæmd  og við þurfum að hugsa í lausnum, hugsa út fyrir kassann og hugsa út fyrir kjörtímabil.

Ég er alltaf  að læra eitthvað nýtt á hverjum degi og hlakka til að takast á við viðfangsefni hvers dags - Því að í starfi sveitarstjórnarfulltrúa höfum við aldrei lokið verkefnunum endanlega J

Hægt verður að sjá erindið í heild sinni á www.samband.is á næstu dögum.

Með kveðju,
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri