FréttirFréttir

  • Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Mánudagspistill bæjarstjóra

26. nóv. 2012

Nú er rétt mánuður til jóla og við hjá Hafnarfjarðarbæ erum komin í jólagírinn. Búið að tendra ljós á öllum jólatrjám sem sett hafa verið upp í bænum nema því sem vinabær okkar í Cuxhaven færði okkur. Það verður gert næsta laugardag kl. 15.00 og eru allir velkomnir niður á höfn að vera við athöfnina.

Helgin í Jólaþorpinu gekk vel og margir komu í heimsókn í þorpið. Hápunktur helgarinnar var þegar kveikt voru ljósin á trénu frá vinabænum okkar í Frederiksberg. Einstaklega fallegt tré sem stendur í hjarta þorpsins. Ég vil þakka öllum sem heimsóttu þorpið fyrir komuna og vonast til að sjá ykkur sem flest aftur um næstu helgi. Á fésbókarsíðu bæjarins er hægt að skoða myndir frá helginni.

Höldum okkur við jólin því nóg er af dagskránni framundan. Á fimmtudaginn kl. 19.00 hefjast Kynstrin öll, jóladagskrá Bókasafns Hafnarfjarðar, með upplestri úr nokkrum jólabókum. Þar munu þau Ragnar Jónsson, Einar Kárason, Margrét Blöndal og Auður Ava Ólafsdóttir lesa upp úr ný útkomnum bókum sínum. Hvet ykkur til að kíkja við á Bókasafninu þar sem hægt verður að gæða sér á kaffibolla meðan hlustað er á upplesturinn.

Laugardaginn 1. desember opnar Jólaþorpið að nýju og þá verður mikið um að vera sem og víðar í bænum. Í Hafnarborg verða Syngjandi jól, kórahátíð þar sem fram koma kórar úr leik- og grunnskólum, úr kirkjukórum og öðrum starfandi kórum í bænum. Alltaf gaman að koma í Hafnarborg og fylgjast með þessum flotta viðburði.

Þessa vikuna funda ráð bæjarins og til umfjöllunar eru meðal annars gjaldskrár og tillögur sem lagðar verða fram í bæjarstjórn þann 5.desember nk. þegar fjárhagsáætlun ársins 2013 verður tekin til seinni umræðu.

Eins og fram kom í fjölmiðlum í dag hefur fræðsluráð tekið gjaldskrár til umræðu vegna fjárhagsáætlunar 2013 fyrir fræðsluþjónustu sveitarfélagsins. Í morgun var samþykkt að vísa sex tillögum til bæjarráðs. Ein af þessum tillögum er hækkun á tekjuviðmiðum vegna viðbótarafsláttar á leikskólagjöldum til tekjulágra um 9% strax frá áramótum og aftur um 5% næsta haust. Einnig leggur fræðsluráð til að gjaldskrár taki mið af verðbólgu og hækki frá og með næsta hausti um 4% í samræmi við verðbólguspá og að matur í leik- og grunnskólum fylgi vísitöluhækkun matar og drykkjar. Lagt er til að gjald fyrir viðbótartíma í leikskólum hækki hins vegar ekki.

Vonast til að sjá ykkur sem flest við höfnina á laugardaginn við tendrun jólatrésins frá Chuxhaven.

Með kveðju,
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri.