FréttirFréttir

  • Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Mánudagspistill bæjarstjóra

19. nóv. 2012

Í dag átti ég ánægjulegan fund með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Farið var yfir löggæslumál í bænum og ljós kom að Hafnarfjörður er undir meðaltali sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að afbrotum í öllum flokkum sem farið var yfir á fundinum: innbrotum, eignarspjöllum og slysum í umferðaróhöppum. Við fögnum þessum árangri og vil ég óska lögreglunni og okkur öllum til hamingju með árangurinn. Hægt er að horfa á fundinn á www.livestream.com/logreglan

Strákarnir í Þjónustumiðstöðinni byrjuðu í dag að setja niður húsin í Jólaþorpinu á Thorsplani. Það er alltaf mikil eftirvænting og spenna þegar styttist í að við bjóðum gesti og gangandi velkomna í þorpið. Þetta er tíunda árið sem þorpið er sett upp og í ár verður fjölbreytt dagskrá sem hægt er að kynna sér á www.hafnarfjordur.is 

Á fimmtudaginn skreyta leikskólabörn bæjarins jólatrén sem umlykja þorpið með fallegu jólaskrauti sem þau hafa búið til. Heyrst hefur að hugvitsemin hafi verið alls ráðandi hjá krökkunum. Verður spennandi að sjá hvernig þorpið mun líta út á laugardaginn.

Í dag kynnti Hafnarborg þá sýningarstjóra sem valdir voru til að taka þátt í 2. hluta samkeppni um haustsýningu í Hafnarborg 2013. Með verkefninu vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir um leið og safnið verður vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af ólíkum viðhorfum og viðfangsefnum. Nánar um það hverjir voru valdir á www.hafnarfjordur.is  

Á miðvikudaginn verður fundur í bæjarstjórn og þar verða m.a. fundargerðir ráða og nefnda á dagskrá en mig langar til að vekja athygli ykkar á auka bæjarráðsfundi sem haldinn verður fimmtudaginn 22.nóvember kl. 08.15. Fundurinn verður opinn og er það í fyrsta skipti sem við höldum opinn ráðsfund. Gestir eru velkomnir á fundinn til að hlusta á umræður um fjárhagsáætlun, hlýða á öldungaráð bæjarins og fá kynningu á bæði innri og ytri vef bæjarins. Fundurinn verður sendur út á Vefveitunni og hvet ég þau ykkar sem ekki eigið þess kost að koma á sjálfan fundinn að fylgjast með honum í gegn um vefinn www.hafnarfjordur.is

Ég hlakka til að hitta ykkur sem flest í jólaþorpinu um helgina og hlakka til að að sjá ljósin tendruð á jólatrénu sem stendur í miðju þorpinu og er gjöf frá vinabænum okkar í Frederiksberg.

Með kveðju,
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri