FréttirFréttir

  • 36248_hafnarborg_-ny

Fréttir af innsendum tillögum að haustsýningu Hafnarborgar 2013

19. nóv. 2012

Hafnarborg kynnir með ánægju þá sýningarstjóra sem valdir voru til að taka þátt í 2. hluta samkeppni um haustsýningu í Hafnarborg 2013.

Í haust var í þriðja sinn kallað eftir tillögum sýningarstjóra sem áhuga hafa á að vinna sýningu inn í rými safnsins og luma á áhugaverðum hugmyndum. Með verkefninu vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir um leið og safnið verður vettvangur þar sem myndlist fær notið sín mótuð af ólíkum viðhorfum og viðfangsefnum.

Verkefnið miðar að því að auka reynslu þátttakenda á sviði sýningarstjórnunar hjá opinberu safni. Leitast er við að veita aðstoð við þróun verkefnis á grundvelli reynslu og þekkingar þar sem fagleg svörun og tæknileg aðstoð er fyrir hendi. Tekið var fram að sérstaklega væri hugað að sýningarstjórum með stuttan feril að baki.

Alls bárust 12 tillögur og hefur listráð safnsins nú valið þrjá til að taka þátt í 2. hluta verkefnisins. Sýningarstjórarnir eiga að baki ólíkan náms og starfsferil sem tengist myndlist, listfræði, byggingarlist og menningartengdum verkefnum.

Það eru eftirfarandi:

Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur. Hún hlaut M. Arch. gráðu í arkitektúr frá Columbia háskóla 2009 en áður hafði hún m.a. lokið MSc í upplýsingatækni frá IT-háskólanum í Kaupmannahöfn 2004 og MA námi í menningarfræði frá Syddansk Universitet 2005. Hún hefur starfað við hönnun og rannsóknir á borgarumhverfi, var framkvæmdastjóri Menningarnætur í Reykjavík 2001-2002 og hefur stýrt ýmsum verkefnum, flutt erindi og fyrirlestra auk þess að vinna efni fyrir fjölmiðla. Anna María er annar stofnenda og eigenda Úrbanistan tilraunastofu.

Lina Kruopyte, sýningarstjóri. Hún hlaut BA gráðu í myndlist frá Listaháskólanum í Vilnius í Litháen árið 2011, stundaði nám í sýningarstjórn við Valand listaháskólann í Svíðþjóð 2010 og leggur nú stund á meistaranám í List í almenningsrými við Konstfack listaháskólann í Stokkhólmi. Lina hefur sýnt eigin verk og verið sýningarstjóri þriggja sýninga í Litháen og Svíþjóð.

Hugsteypan (Þórdís Jóhannesdóttir og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir myndlistarmenn). Hugsteypan er samstarfsverkefni myndlistarmannanna Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Þórdísar Jóhannesdóttur. Þær útskrifuðust báðar frá Listaháskóla Íslands árið 2007. Áður hafði Ingunn Fjóla lokið BA prófi í listasögu, en Þórdís lauk kennsluréttindanámi árið 2009. Síðastliðin ár hafa þær starfað jöfnum höndum saman undir merkjum Hugsteypunnar og í sitt hvoru lagi við eigin myndlistarverkefni. Sem Hugsteypan hafa þær tekið þátt í sýningum og verið sýningarstjórar sýningar í Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Listráð Hafnarborgar velur eina tillögu og verður hún lögð til grundvallar haustsýningunni sem opnuð verður í lok ágúst 2013.