FréttirFréttir

  • Hljodfaeraleikarar-og-kor-i-Dimmalimm

Þemavika og dagur tónlistarskólans

29. feb. 2012

Undanfarin ár hefur Tónlistarskóli Hafnarfjarðar kosið að stokka upp allt skólastarfið í vikunni á undan Degi tónlistarskólanna sem nú ber upp á laugardag 25. febrúar.

Að þessu sinni var þema vikunnar íslensk tónlist. Allir nemendur skólans léku í þessari viku íslenska tónlist og eins var mikil áhersla lögð á samspil af ýmsu tagi. Tónverkið Dimmalimm eftir Atla Heimi við sögu Muggs var æft með stórum sönghóp ásamt fjölmörgum hljóðfæranemendum. Tvær hljómsveitir voru stofnaðar sem tókust m.a. á við íslensku þjóðlögin í margbreytilegum útsetningum. Snorri S. Birgisson kom og ræddi við píanónemendur um útsetningar sínar á íslenskum þjóðlögum.

Söngdeildin æfði Jónasarlögin eftir Atla Heimi og stór hópur nemenda fór og heimsótti Tónlistarsafnið í Kópavogi. Í Tónkvísl við Gamla Lækjarskólann var m.a. boðið upp á slagverks og Raggie - samspil auk þess sem kynntir voru möguleikar sem bjóðast í ýmsum forritum í tölvunum.

Miðvikudaginn 22. febrúar kl. 20.00 héldu kennarar skólans tónleika í Hásölum þar sem einvörðungu var flutt íslensk tónlist og öllum boðið á þessa tónleika. Laugardaginn 25. febrúar á Degi tónlistarskólanna var samfelld dagskrá frá kl. 10.30 þegar hljóðfærakynning var í Hásölum fyrir nemendur í Forskóla II. Að þeirri kynningu lokinni gafst nemendum og foreldrum tækifæri til að heimsækja kennara í stofunum og forvitnast frekar um einstök hljóðfæri. Allan laugardaginn til kl. 16.00 voru síðan tónleikar bæði á Torginu í Tónlistarskólanum og eins í Hásölum þar sem nánast einvörðungu var leikin íslensk tónlist.

Dagurinn tókst ótrúlega vel og var þátttaka gesta slík að við lá að færri kæmust að en vildu og hefur annar eins fjöldi gesta ekki áður sést í Tónlistarskólanum.