FréttirFréttir

  • gudmundurrunar

Mánudagspistill bæjarstjóra

28. feb. 2012

Ágæta samstarfsfólk, Þann 23. febrúar var skrifað undir samning um Atvinnutorg í Hafnarfirði. Atvinnutorgið er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis sem ætlað er að veita atvinnuleitandi og vinnufærum ungmennum einstaklingsmiðaða, atvinnutengda ráðgjöf og stuðning til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Það er mikið fagnaðarefni að þetta verkefni, sem á uppruna sinn í Hafnarfirði, skuli vera orðið að veruleika. Allt of margt ungt fólk er án atvinnu og vonandi bætir Atvinnutorgið stöðu einhverra. Áhersla verður lögð á starfsþjálfun ungmenna sem þiggja fjárhagsaðstoð hjá Fjölskylduþjónustunni og á ungmenni 16-18 ára sem eiga engan bótarétt eða eru að missa hann. Atvinnutorgið var kynnt á stjórnendafundi fyrir skömmu og það var ánægjulegt hve margir stjórnendur lýstu strax yfir vilja til að taka þátt og fá ungmenni í starfsþjálfun. Nánar er hægt að lesa um Atvinnutorgið í frétt á heimasíðu bæjarins.

Á morgun hefur Menningar- og ferðamálanefnd boðað til opins vinnufundar um stefnumótun í ferðamálum í Hafnarfirði . Fundurinn hefst kl. 12.00 að Vesturgötu 32 (Bungalowi) og vonast er eftir þátttöku frá sem flestum sem hafa áhuga á málaflokknum. Reiknað er með að fundurinn taki um tvo klukkutíma.

Á fimmtudaginn þegar þið mætið til vinnu, verður nýr vefur bæjarins loksins : ) kominn í loftið. Ég hvet alla til að skoða hann vel og vera duglega að senda inn ábendingar um það sem vel er gert eða betur mætti fara. Næsta skref er að huga að undirvefjum bæjarins og færa þá undir sama kerfi og samræma við www.hafnarfjordur.is

Og að lokum vil ég óska börnum og starfsfólki á Víðivöllum til hamingju með daginn á morgun, en það eru liðin 35 ár frá því að skólinn tók til starfa.

Með kveðju, Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri.