FréttirFréttir

  • Atvinnutorg

Atvinnutorg

27. feb. 2012

Í hádeginu í dag skrifuðu þeir Guðmundur Rúnar Árnason bæjarstjóri, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar undir samning um Atvinnutorg í Hafnarfirði.

Atvinnutorg er nýtt samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis sem ætlað er að veita atvinnuleitandi og vinnufærum ungmennum, einstaklingsmiðaða, atvinnutengda ráðgjöf og stuðning til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Markmiðið er að vinna með ungu fólki, yngra en 25 ára sem hvorki er í námi né vinnu og aðstoða það við að finna vinnu eða komast í starfsþjálfun. Áhersla verður í upphafi lögð á starfsþjálfun ungmenna sem þiggja framfærslustyrk hjá Hafnarfjarðarbæ en einnig á verkefnið að vera ætlað ungmennum 16-18 ára sem eiga engan bótarétt auk þeirra ungmenna sem lengi hafa verið á atvinnuleysisbótum og eru að missa bótarétt sinn eftir að hafa verið í fjögur ár án atvinnu.

Nokkrar stofnanir bæjarins hafa nú þegar lýst yfir jákvæðum vilja sínum til að taka þátt og fá ungmenni í starfsþjálfun. Boðið verður upp á 50% starf í hálft ár og greiðir Hafnarfjarðarbær laun fyrir viðkomandi ungmenni. Á vinnutímabilinu verður þátttakendum boðið upp á fræðslu um atvinnuþátttöku og fleira sem nýtist þeim í starfi. Fjölskylduþjónustan, Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar, Miðstöð símenntunar og Vinnuskóli Hafnarfjarðar hafa komið að undirbúningi verkefnisins og munu þessar stofnanir allar taka þátt í að tryggja að ungmennunum farnist vel og þau öðlist jákvæða starfsreynslu sem nýtist þeim til framdráttar hvort sem er í í atvinnuleit eða afturhvarfi til náms