FréttirFréttir

  • gudmundurrunar

Mánudagspistill bæjarstjóra

21. feb. 2012

Ágæta samstarfsfólk, Það er heldur betur búið að vera mikið að snúast í menningarmálunum undanfarið. Á föstudaginn fyrir rúmri viku var Safnanótt, sem tókst sérlega vel. Mig langar að þakka öllu því starfsfólki sem tók þátt í undirbúningi og viðburðum á Safnanótt, auk þess sem ýmsir samstarfsaðilar sem ekki starfa hjá bænum eiga miklar þakkir skildar.

Á fimmtudagskvöldið var boðið upp á leikritið og söngleikinn Áfram eða aftur á bak í Gaflaraleikhúsinu. Verkið er afrakstur samstarfs grunnskólanna í bænum og Gaflaraleikhússins. Björk Jakobsdóttir leikkona er leikstjóri og kennari unglinganna í valinu. Nemendurnir eru um 40 talsins og koma frá Hvaleyrarskóla, Lækjarskóla og Víðistaðaskóla. Með hópnum starfa dansarar frá Listdansfélagi Hafnarfjarðar og hljómsveitin White signal. Ég skemmti mér konunglega á sýningunni og mun beita mér fyrir því að framhald verði á þessu tilraunasamstarfi og að allir grunnskólar í bænum eigi þess kost að taka þátt í því.

Hápunkturinn á þessari röð menningarviðburða hljóta þó að teljast 100 ára afmælistónleikar Karlakórsins Þrasta í Hörpu í gærkvöldi. Tónleikarnir voru í alla staði frábærir og ekki hægt að halda öðru fram en að afmælisbarnið beri aldurinn vel. Til hamingju Þrastafélagar - og hafið þökk fyrir tónleikana í gærkvöldi og framlag ykkar til mannlífs í Hafnarfirði undanfarin 100 ár.

En menningarveislan heldur áfram. Á fimmtudagskvöldið kl. 20 flytur Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur fyrirlesturinn Tíu Kyrralíf (og nokkur til vara) í Hafnarborg. Þar fjallar hann um kyrralífsmyndina í sögulegu og hugmyndalegu ljósi. Efni fyrirlestrarins tengist sýningunni Kyrralíf sem nú stendur yfir í aðalsal Hafnarborgar. Frekari upplýsingar um sýninguna er að finna á vef Hafnarborgar.

Á miðvikudaginn verður mikið um að vera í bænum þegar öskudagshátíð verður haldin á Thorsplani þar sem kötturinn verður sleginn úr tunnunni og margt annað gert til skemmtunar. Hátíðin hefst kl. 13.00 og er nánari dagskrá á www.hafnarfjordur.is.

Fimmtudaginn 23. febrúar verður opnað Atvinnutorg í húsnæði Atvinnumiðstöðvar Hafnarfjarðar, Strandgötu 4. Atvinnutorg er nýtt samstarfsverkefni Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar, Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytisins. Því er ætlað að veita atvinnuleitandendum og vinnufærum ungmennum, á aldrinum 16 -25 ára, einstaklingsmiðaða, atvinnutengda ráðgjöf og stuðning til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Ég vek athygli á könnun um Sorphirðumál sem finna má að heimasíðu bæjarins. Markmiðið með könnuninni er að kanna hug bæjarbúa til sorphirðu, flokkunar og endurvinnslu. Könnunin verður á heimasíðu bæjarins frá 9.febrúar – 9.mars og ég hvet alla til að taka þátt.

Að lokum langar mig - að gefnu tilefni - til að víkja stuttlega að þeirri umræðu sem hefur verið um Eftirlaunasjóð starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar að undanförnu. Fyrst langar mig að árétta, að í nýbirtri rannsóknaskýrslu um lífeyrissjóði kemur ekkert fram um ESH sem ekki var áður vitað. Staða sjóðsins og skuldbindingar bæjarsjóðs vegna hans koma árlega fram í ársreikningum hans og bæjarsjóðs. Í öðru lagi hefur staðan engin áhrif á réttindi sjóðfélaga, en þar er eingöngu um að ræða tiltölulega fámennan hóp starfsfólks sem hóf störf hjá bænum fyrir 1997. Þeirra réttindi eru trygg.

Með kveðju,
Guðmundur Rúnar Árnason
bæjarstjóri