FréttirFréttir

Blóðug vígaferli - síðasta helgin

27. sep. 2001

Nú fer hver að verða síðastur að ganga um Kopargötu haustið 948 og heilsa upp á íbúa Jórvíkur, kynnast Snara skartgripasala sem rétt í þessu er að ljúka við síðustu sölu dagsins, koma við á markaðinum og kíkja á hina engilsaxnesku frú Winr sem þar ræður ríkjum og leggja svo leið sína að húsi Þórfasts greiðugerðamanns sem er í óða önn að skera út í hjartarhorn.

Þegar göngunni um götuna líkur tekur við blóðugri hlið víkingatímans og í stað vinalegra íbúa Kopargötu má meðal annars sjá beinagrind af ungum manni sem féll í bardaga haustið 1066. Hauskúpur af mönnum sem drepnir voru á flótta, klofna höfuðkúpu auk lærleggs, upphandleggs og mjaðmaspaða sem á eru miklir áverkar. Þar er einnig hægt að lesa um blóðuga og hrottafegna
bardaga víkingatímans.

Í Smiðjunni er einnig sýningin Þannig var... minja- og sögusýning þar sem sjá má fjölda muna úr sögu bæjarins svo sem Melshúsabátinn, fyrsta slökkviliðsbílinn, leikföng, bruggtæki Einars Benediktssonar skálds, hjól Hallsteins Hinrikssonar og miðasölugluggann úr Hafnarfjarðarbíói svo
eitthvað sé nefnt ásamt fjölda ljósmynda.

Klukkan 15.00 þann 29. september mun Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður koma í Smiðjuna og kynna kuml og haugfé sem fannst á Hafurbjarnarstöðum á Reykjanesi árið 1868 en hluti af því verður til sýnis í Smiðjunni þessa helgi.

Verið velkomin á Byggðasafnið