FréttirFréttir

Jákvæður árangur af öflugu foreldrastarfi

30. nóv. 2004

Mánudagskvöldið 29. nóvember fór fram foreldrafundur í nýrri félagsálmu Víðistaðaskóla og var það félagsmiðstöðin, foreldrafélagið, forvarnafulltrúi og skólinn sem stóðu að fundinum.

Í upphafi fundarins gerði fulltrúi frá Rannsóknum og greiningu grein fyrir vímuefnaneyslu ungs fólks í Víðistaðaskólahverfinu.  Áfengis-, tóbaks- og hassneysla meðal unglinga úr 10. bekk hefur minnkað umtalsvert síðustu misseri.  Þessum árangri má trúlega þakka öflugu foreldrastarfi foreldrafélagsins sem fyrst og fremst hefur snúist um velferð barnanna í skólanum hvort sem horft sé á forvarnir, eins og foreldrarölt eða aðbúnað nemenda innan skólans.  Fulltrúum í fráfarandi stjórn skólans var þakkað sérstaklega fyrir öflugt starf.

Félagsmiðstöðin Hraunið kynnti starf sitt sem fram fer við bestu aðstæður í nýrri byggingu skólans.  Þar er verið að vinna að öflugu hópastarfi með unglingunum sjá nánar á www.hraunid.is.

Fulltrúi lögreglunnar fór yfir stefnumörkun lögreglunnar sem miðar að því að gera starf lögreglunnar en markvissar við að fækka glæpum. Nokkur árangur hefur náðst og er samstarfi við foreldrafélög og félagsþjónustu lykilþáttur í því starfi.

Páll Ólafsson félagsráðgjafi hjá félagsþjónustunni fór yfir leiðir til að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu.  Í gegnum starf sitt vinnur hann oft með ungu fólki sem illa hefur gengið að fóta sig.  Páll bendir á að vímuefni séu orðin harðari í dag en áður og hassreykingar ungs fólks hafi mun skjótari neikvæð áhrif en áður.

Af framansögðu má draga þá ályktun að forvarnastarfið í Víðistaðaskóla sé á fullum krafti og þeir sem stóðu að fundinum ætli að halda áfram saman að bæta forvarnir og stuðla að jákvæðu umhverfi fyrir unga fólkið.