FréttirFréttir

  • raeningjar

Dagur íslenskrar tungu haldinn í 16. sinn

16. nóv. 2011

Árið 1995 ákvað menntamálaráðuneytið að 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar yrði árlega haldinn hátíðlegur sem dagur íslenskrar tungu. Var það vel til fundið, enda unni hann ættjörð sinni mjög; orti til hennar dýrustu ljóðaperlur og stóð dyggan vörð um móðurmálið. Árið 1996 varð þetta að veruleika og degi íslenskrar tungu hefur síðan vaxið ásmegin. Sú hefð hefur skapast að allir skólar minnast dagsins á ýmsan máta, fá til sín góða gesti og nemendur fara í heimsóknir og lesa upp. Allra augu beinast að tungumálinu og mætti það gerast fleiri daga. Stóra upplestrarkeppnin hófst hér í Hafnarfirði fyrir 16 árum og er nú haldin í öllum 7. bekkjum landsins. Ræktunarhluti keppninnar fer af stað á degi íslenskrar tungu og stendur fram í lok febrúar en þá hefst hátíðarhlutinn og lokahátíðin í Hafnarborg verður 13. mars. Þar munu fulltrúar allra skólanna í Hafnarfirði og á Álftanesi stíga á stokk og flytja texta og ljóð eftir valda höfunda. Allir nemendur í 7. bekk fá viðurkenningarskjöl sem send eru í skólana. Þá fer af stað smásagnasamkeppni í 8.-10. bekkjum grunnskólanna og eru skil á því verkefni í febrúar. Í 6. bekk er samkeppni um boðskort á Stóru upplestrarkeppnina og er öllum frjálst að taka þátt í þeirri samkeppni. Í fyrra fór af stað nýtt þróunarverkefni í 4. bekkjum grunnskólanna og má segja að þetta sé sprotaverkefni frá Stóru upplestrarkeppninni enda markmiðin þau sömu en verkefnið sniðið að þroska yngri nemenda. Verkefnið gekk mjög vel og því var ákveðið að endurtaka leikinn en þetta er samvinnuverkefni Skólaskrifstofu og umsjónarkennaranna og mun standa frá degi íslenskrar tungu og fram í apríl en lýkur þá með samverustund nemenda og foreldra. Allir eru með í liðinu og allir frá viðurkenningarskjöl og hátíðarhlutinn einkennist af virðingu fyrir móðurmálinu, virðingu fyrir upplesurum og áheyrendum. Mörg sveitarfélög hafa óskað eftir upplýsingum um þetta nýja átaksverkefni og er rétt að benda áhugasömum á skýrslu sem gerð var um verkefnið og er hana að finna á heimasíðu Stóru upplestrarkeppninnar sem er www.hafnarfjordur.is/upplestur.