FréttirFréttir

Klarinettukvartett Tónlistarskólans hreppti  verðlaun á Lokahátíð Nótunnar í Hörpu

26. mar. 2014

Lokahátíð Nótunnar var haldin í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 23. mars. Á hátíðinni komu fram öll tónlistaratriðin sem unnið höfðu til verðlauna á svæðistónleikunum sem haldnir voru víðsvegar um landið.

Lokahátíðin í Hörpu var í alla staði glæsileg  og óhætt að segja að öll tónlistaratriðin sem þar komu fram væru þess verðug að hljóta verðlaun. Valnefndin þau Helga Þórarinsdóttir víóluleikari, Martial Nardeau flautuleikari og Þóra Einarsdóttir óperusöngkona var ekki öfundsverð af hlutverki sínu að velja 10 tónlistaratriði til að hljóta verðlaun.

Niðurstöður valnefndarinnar komu reyndar engum á óvart þegar tilkynnt var að Klarinettukvartett Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hefði hlotið verðlaun fyrir framúrskarandi flutning í flokknum samspil í Framhaldsdeild. Tónlistarskólinn óskar þeim Eyrúnu Björgu Guðjónsdóttur, Líf Hallgrímsdóttur, Markúsi Bjarti Steinarssyni og Ragnari Má Jónssyni sem skipa Klarinettukvartett skólans og Ármanni Helgasyni klarinettukennara til hamingju með þennan glæsilega árangur og þakkar fyrir þá miklu eljusemi og fórnfýsi við strangar æfingar fyrir Lokahátíð Nótunnar.

 Það var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sem ávarpaði gesti Nótunnar í lokin og afhenti sigurvegurum verðlaunin. Ríkisútvarpið – sjónvarp tók upp öll tónlistaratriðin sem fengu verðlaun og gefst þá öllum, sem ekki höfðu tök á að vera á tónleikunum í Hörpu kostur á að sjá og heyra þessi stórkostlegu tónlistaratriði víðsvegar af landinu saman komin í Eldborgarsalnum.