FréttirFréttir

  • Hafnarfjörður

Endurfjármögnun lána Hafnarfjarðarbæjar í höfn

22. mar. 2014


Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gærkvöldi  var tilboð Íslandsbanka um endurfjármögnun bæjarins samþykkt.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri segir að endurfjármögnunin komi til með að lækka greiðslubyrði og minnka gjaldeyrisáhættu sveitarfélagsins og styrkja um leið fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Endurspeglist það meðal annars í forsendum hækkaðs lánshæfismats sem birt var  í síðustu viku.

Bæjarráði falin frekari útfærsla í samræmi við afgreiðslu Seðlabanka Íslands

Undanfarin misseri hefur verið leitað eftir endurfjármögnun á erlendum skuldum bæjarins og hefur mikil vinna verið  lögð í að finna hagkvæmustu lausnina.  Með samþykkt bæjarstjórnar í dag hefur sú endurfjármögnun verið tryggð. Er nú beðið svara Seðlabanka við beiðni sveitarfélagsins um undanþágu frá gjaldeyrislögum en endanleg samsetning fjármögnunar mun meðal annars ráðast af viðbrögðum við þeirri beiðni.

Hafnarfjarðarbær er ekki skuldbundinn til að nýta lánsloforð Íslandsbanka til fulls heldur getur fjármögnun bæjarins orðið með fjölbreyttari hætti, t.d. með þátttöku Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) og með sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða. 

Aðstæður á skuldabréfamarkaði eru sveitarfélögum nokkuð hagfelldar og því gæti gefist tækifæri til að festa vexti til langs tíma með útgáfu skuldabréfa. Endanleg samsetning fjármögnunar bæjarins veltur m.a. á þeim kjörum sem bjóðast á skuldabréfamarkaði og hjá LSS.  Með samþykkt bæjarstjórnar er bæjarráði falið að ljúka þeirri vinnu.

Sama lánshæfnismat og Kópavogur

Í þeim samningum sem gerðir voru við erlenda lánadrottna í árslok 2011 tókst með tímabundinni lánafyrirgreiðslu að skapa nauðsynlegar forsendur og dýrmætt svigrúm til að leggja drög að hagstæðari langtímafjármögnun sveitarfélagsins innanlands. Tíminn hefur verið vel nýttur og markvisst hefur verið unnið að því að styrkja rekstrarforsendur sveitarfélagsins samhliða því sem undirbúningur að endurfjármögnun hefur farið fram. Árangur hagræðingaraðgerða auk hagstæðari skilyrða í ytra umhverfi hafa orðið til þess að Hafnarfjörður getur nú endurfjármagnað erlendar skuldir að fullu á innlendum markaði og er lánsloforð Íslandsbanka mikilvægur áfangi í því ferli.

Þessi árangur er staðfestur í nýju lánshæfismati en umrætt tilboð og sú viðurkenning sem í því felst er ein af grundvallarforsendum þess að Hafnarfjarðarbær nú skráður í lánshæfisflokk i.BBB1 með stöðugum horfum, sem er sama flokkun og m.a. Arion Banki og Kópavogsbær hafa nýlega hlotið.