FréttirFréttir

Þemadagar í Setbergsskóla

21. mar. 2014

Þemadagar hafa verið undanfarna daga í anda fjölgreindaleika og tókust þeir mjög vel. Nemendur spreyttu sig á fjölbreyttum verkefnum á 33 stöðvum í 10 – 11 barna hópum þvert á árganga. Hópstjórar í hverjum hópi voru nemendur úr 9. og 10. bekk. 

Lokadaginn vorum við hins vegar í þremur 115 manna hópum og fórum á þrjár stöðvar. Í matsal skólans kenndi Vilborg danskennari fjölbreytta dansa. Í íþróttasalnum leiddi Tanya fjörugt zumba og í fyrirlestarsalnum fluttu nemendur úr 10. bekk ljóð/texta sem allir sungu síðan við undirleik Árna Þórðar og Viktors starfsmanna við skólann.

Þemadagarnir enduðu síðan á sal skólans með öllum nemendum skólans þar sem María skólastjóri ávarpaði hópinn, stúlkur úr unglingadeildinni sungu undurblítt og Friðrik Dór söngvari og fyrrum nemandi skólans kom sem leyninúmer og söng og sprellaði með hópnum. Hann tók nokkur lög og nemendur sungu með. Að lokum var afmælissöngurinn sunginn fyrir skólann á 25 starfsári hans.

Dagurinn tókst mjög vel og var gaman að fá foreldra í heimsókn.