Fréttir  • IMG_1517

Niðurfelling gjalda vegna sóttkvíar/einangrunar barna

21. jan. 2022

Niðurfelling gjalda vegna sóttkvíar/einangrunar barna í leikskólum og á frístundaheimilum

Síðustu daga og vikur hefur Covid haft mikil áhrif á skólasamfélagið í Hafnarfirði líkt og í öðrum sveitarfélögum. Á tímum sem þessum eiga foreldrar og forsjáraðilar rétt á niðurfellingu gjalda vegna sóttkvíar og einangrunar barna sinna. Hafnarfjarðarbær og starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar vill nota tækifærið og þakka fjölskyldum bæjarins fyrir sýndan skilning á ótrúlegum tímum sem sannarlega hafa haft áhrif á allt skólasamfélagið og fjölskyldulífið. Samstarfið og samtalið síðustu daga, vikur og ár hefur einkennst af virðingu og vinsemd. Fyrir það ber að þakka sérstaklega.  

Þessar reglur eiga við vegna niðurfellingar gjalda í leikskólum og á frístundaheimilum vegna sóttkvíar/einangrunar

  1. Ef barn, sem er í leikskóla eða á frístundaheimili er sett í fyrirskipaða sóttkví/einangrun þá þarf foreldri að skila inn vottorði frá heilsugæslu þess efnis. Í framhaldi af því eru gjöld felld niður þann tíma sem sóttkví/einangrun varir.
  2. Ef deild í leikskóla, allur leikskólinn/frístundaheimilið lokar vegna smits í leikskólanum/frístundaheimilinu og börn/nemendur sett í fyrirskipaða sóttkví af þeim völdum þá gerist ekki þörf á að skila inn vottorði.
  3. Umsókn um endurgreiðslu leikskóla- og frístundagjalda skal berast leikskólum/frístundaheimilum í tölvupósti til leikskólastjóra/deildarstjóra frístundar. Með umsókn skal fylgja vottorð um sóttkví/einangrun. Umsókn þarf að skila innan tveggja vikna eftir að sóttkví/einangrun lýkur.
  4. Endurgreiðsla vegna sóttkvíar/einangrunar er í formi afsláttar af leikskóla- /frístundagjöldum fyrir næsta mánuð á eftir að umsókn og vottorð barst leikskóla/frístundaheimili.
  5. Afsláttur samkvæmt leiðbeiningum þessum er ekki afturvirkur.
  6. Það eru ekki tilmæli yfirvalda að halda börnum heima ef ekki eru um veikindi eða sóttkví að ræða. Hafnarfjarðarbær leiðréttir því ekki gjöld ef foreldrar kjósa að halda börnum heima.

Hvernig fæ ég vottorð/staðfestingu á sóttkví?

Leiðbeiningar þessar voru samþykktar í fræðsluráði 15. desember með síðari breytingum 19. janúar og tóku þær gildi frá og með 15. desember 2021.

Almenn viðmið um sóttkví/einangrun sem tengjast ofangreindu  

  • Einstaklingar þurfa að vera skráðir í sóttkví til að hægt sé að gefa út staðfestingu/vottorð um slíkt. Einstaklingar eru skráðir í sóttkví vegna ferðalaga eða nándar við staðfest tilfelli.
  • Ekki eru gefin út vottorð vegna sóttkvíar eftir ferðalög. Reglur um sóttkví eftir ferðalög gilda um alla sem koma til landsins skv. reglugerð ráðherra og er ekki gefin út sérstök vottorð vegna þessa.
  • Ekki eru gefin út vottorð vegna svokallaðar úrvinnslusóttkvíar (sjá um það hugtak hér að neðan) enda tímabundin ráðstöfun en ekki formleg sóttkví skv. beinum fyrirmælum.