Fréttir
  • NidurMedGrimuna

Niður með grímuna

29. mar. 2016

Tveir fulltrúar úr Ungmennaráði Hafnarfjarðar, Lára Rós Friðriksdóttir og Katrín Rós Þrastardóttir, skelltu sér á ráðstefnu Ungmennaráðs Ungmennafélags Íslands dagana 16.-18. mars. Ráðstefnan var haldin á Hótel Selfossi og var yfirskrift ráðstefnunnar í ár: Niður með grímuna – geðheilsa ungmenna á Íslandi. Þetta er í sjöunda sinn sem Ungmennafélag Íslands stendur fyrir ráðstefnunni, Ungt fólk og lýðræði með það að markmiði að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks. 

Á ráðstefnunni var greint frá stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi m.a. með góðu erindi frá Kvíðameðferðarstöðunni. Megin áhersla var þó lögð í vinnu ungmenna í hinum ýmsum málstofum sem unnið var í báða dagana. Þátttakendum á ráðstefnu stóð til boða að taka þátt í eftirfarandi málstofum: 

  • Tilfinningasmiðja
  • Sjálfsmynd stráka
  • Sjálfmynd stelpna
  • Fordómar og fjölbreytileiki
  • Áhrif samfélagsmiðla
  • Geðræktarkassinn

Einnig voru í boði vinnusmiðjur þar sem leitast var eftir að finna tíu gagnleg og hjálpleg ráð frá unga fólkinu sjálfu sem koma að góðum notum í vanlíðan. Málstofa um ungt fólk og samfélagið var síðan til þess fallin að draga saman þá vinnu sem átti sér stað í vinnustofunum auk þess sem gott samtal um geðheilbrigði í framhaldsskólum átti sér stað þar sem hópurinn leitaðist eftir því að koma með hugmyndir um hvernig geðheilbrigðisstefna fyrir framhaldskólanemendur væri æskileg.  

Fulltrúar UMH tóku virkan þátt í ráðstefnunni og fóru heim í Hafnarfjörðinn með ný verkfæri til að nýta í vinnu sinni með ungu fólki bæði í leik og starfi. 

Myndirog nánari umfjöllun um ráðstefnuna er að finna hér