Fréttir  • BoluefniCovid19Feb2021

Neyðarstig Almannavarna vegna COVID-19

13. jan. 2022

Ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, hefur lýst yfir neyðarstigi Almannavarna vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Frá því heimsfaraldurinn hófst hefur neyðarstigi Almannavarna vegna COVID-19 verið lýst yfir þrisvar, 6. mars 2020, 4. október 2020 og 24. mars 2021. 

Sjá tilkynningu á vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra 

Þrátt fyrir að staðan sé eins og hún er í faraldrinum þá eru bjartari tímar framundan og án efa ljós við enda ganganna. Allt mun þetta hefjast með samstöðunni sem er okkar besta vopn. Það er mat Sóttvarnalæknis og Almannavarna að ef samfélagið tekur sig saman, hægi á, minnki samgang eins og hægt er, sé um tímabundið ástand að ræða og landsmenn geti með hækkandi sól lifað með mun minni samkomutakmarkanir en nú eru í gildi.

Frá því að ómícron afbrigði kórónaveirunnar greindist hér fyrst í byrjun desember 2021 hefur COVID-19 faraldurinn verið í miklum vexti. Samfélagslegar takmarkanir voru hertar þann 23. desember sl. en þrátt fyrir þær takmarkanir hefur ekki tekist að fækka daglegum smitum innanlands að marki og eru þau þessa dagana 1.000-1.200, auk þess er veruleg aukning á smitum hjá þeim sem greinast daglega á landamærum. Staðan er því þung og þyngist nú dag frá degi. Landsspítalinn var færður uppá neyðarstig 28. desember sl. og er það mat Landlæknis að staðan muni á næstunni þyngjast enn meira á fleiri heilbrigðisstofnunum; bæði vegna fjölgunar sjúklinga með COVID-19 sem og vegna fjölgunar starfsmanna í einangrun. Ef spár um fjölda innlagna vegna COVID-19 ganga eftir má búast má við hraðri fjölgun innlagna á næstunni.

Í ljósi framangreinds er það mat ríkislögreglustjóra að rétt sé að lýsa yfir Neyðarstigi Almannavarna. Með því virkja fyrirtæki og stofnanir viðbragðsáætlanir sýnar um órofinn rekstur á hæsta stigi. Slíkt hefur ekki almenn áhrif á almenning en lýtur fyrst og fremst að þeim fyrirtækjum, stofnunum og viðbragðsaðilum sem hlutverki hafa að gegna í viðbragðsáætlun almannavarna og sóttvarnalæknis. Sóttvarnalæknir, Almannavarnir og stýrihópur um verkefni sem snýr að COVID-19, mun áfram fylgjast með þróun faraldursins og taka ákvarðanir miðað við framvindu hans.

Tímabil neyðarstigs almannavarna vegna COVID-19

  • 6.3 2020 – 25.5.2020
  • 4.10.2020 – 12.02.2021
  • 24.3.2021 – 12.5.2021

Áhrif á þjónustu bæjarins

Hafnarfjarðarbær framkvæmir í takti það viðbragðsstig sem í gangi er hverju sinni og grípur til nauðsynlegra aðgerða sem miða að því að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar til að halda uppi samfélagslega mikilvægri þjónustu og starfsemi. Allar aðgerðir sveitarfélagsins miða að því að tryggja öryggi íbúa og starfsfólks með áherslu á þá þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum viðbragðsstigum. Starfsstöðvar Hafnarfjarðarbæjar eru um 70 talsins. Hafa stjórnendur skóla, heimila og stofnana virkjað sínar viðbragðsáætlanir í takt við viðbragðsstig og gripið til samræmdra viðbragða í takt við tilmæli og leiðbeiningar Landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna.

Sjá upplýsingar um þjónustu Hafnarfjarðarbæjar þessa dagana