Fréttir
  • Namsefnisgjof-Vidivellir

Námsefnisgjöf til leikskóla

22. okt. 2018

Fulltrúar í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar afhentu á dögunum námsefnispakka til nemenda á Leikskólanum Víðivöllum. Eru nú allir leikskólar í Hafnarfirði komnir með fjölþættan námsefnispakka í hendurnar sem Menntamálastofnun, í samstarfi við Lions, er að færa öllum leikskólum landsins.

Í pakkanum er að finna spjöld með bókstöfum sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt, einnig veggspjöld með bók- og tölustöfum sem hægt er að hafa sýnileg í umhverfinu, hreyfispil, tónlistarleiki og léttlestrarbækur.  Afhending námsefnisins er liður í Þjóðarsáttmála um læsi og er það von Menntamálastofnunar að efnið muni nýtast vel til eflingar máls og læsis í því fjölbreytta starfi sem fram fer í leikskólum landsins. Fulltrúar Lions-hreyfingarinnar á Íslandi tóku að sér að sjá um dreifingu á námsefninu og heimsækja alla leikskóla með glaðninginn.  Lionsklúbbarnir þrír í Hafnarfirði sáu um dreifingu til hafnfiskra leikskóla. Lions er stærsta alþjóðlega þjónustu-hreyfing heims, stofnuð í Bandaríkjunum 1917. Í dag starfa yfir 1,4 milljónir Lions-félaga í 206 löndum.  Á heimsvísu er Lions hreyfingin að berjast gegn ólæsi og hvetja til lestrar og hefur gert síðustu 10 árum með góðum árangri. Lionsklúbbar eru hvattir til að sinna sínu byggðarlagi auk þess sem klúbbar geta unnið saman á landsvísu við stærri verkefni.  Þessi námsefnispakki frá Menntamálastofnun, í samstarfi við Lions, er kærkomin gjöf sem talar vel saman við læsistefnu Hafnarfjarðarbæjar.  

Við þökkum Menntamálastofnun og Lionsklúbbum Hafnarfjarðar innilega fyrir okkur!

Læsistefna Hafnarfjarðar

Læsisstefna Hafnarfjarðar er samfélagslegt verkefni þar sem leik- og grunnskólar, ásamt foreldrum og ýmsum stofnunum bæjarins, taka höndum saman um að efla málþroska og læsi barna. Tilgangur þess að efla læsi er að nemendur geti lesið sér til gagns og ánægju við lok grunnskólagöngu. Sett eru viðmið um æskilegan árangur og lögð áhersla á að veita öllum nemendum kennslu við hæfi. Starfsfólk leik- og grunnskóla velur árangursríkar kennsluaðferðir sem stuðla að því að læsismarkmiðum sé náð.