Fréttir
  • strandstigur

Möguleikar á hóteli í miðbæ Hafnarfjarðar kannaðir

-Nýtt hótel myndi efla miðbæinn segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri

29. jan. 2015

Á fundi bæjarráðs í morgun var rætt um hóteluppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar.  Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri  segir grundvöll fyrir nýju hóteli í Hafnarfirði. 

„ Í Hafnarfirði eru nú tvö þriggja stjörnu hótel, Hótel Víking og Hótel Hafnarfjörður með um 350 gistipláss og samkvæmt upplýsingum frá eigendum þeirra var nýting hótelanna mjög góð á síðasta ári. Samkvæmt þessu og öflugum vexti í ferðaþjónustu á Íslandi, einkum utan sumartíma, virðist augljóslega grundvöllur fyrir þriðja hótelinu í Hafnarfirði. Kannanir sýna að 15% erlendra ferðamanna sem komu til Íslands sumarið 2014 höfðu einhverja viðdvöl í Hafnarfirði. Þar af gistu rúmlega 3%, í að jafnaði 3,1 nótt, en um 12% komu í dagsferð. Það þýðir að aðeins 20% þeirra sem áttu viðdvöl í bænum gistu þar og þarna er klárlega sóknarfæri“ segir Haraldur.

Ferðamönnum hefur fjölgað í Hafnarfirði

Á fundi bæjarráðs var lagt fram minnisblað þar sem fram kemur að samkvæmt Hagstofu Íslands fjölgaði gistinóttum á heilsárshótelum á Íslandi úr 1.035 þúsund árið 2005 í 2.320 þúsund árið 2014, eða um 124%. Þar af var hlutdeild heilsárshótela á höfuðborgarsvæðinu 67-70%.  Árið 2014 stefnir í að gistinætur þeirra verði alls um 1.560 þúsund eða 67% af heildinni.  Af gistinóttum á heilsárshótelum á höfuðborgarsvæðinu árið 2014 má áætla að hlutur hótelanna tveggja í Hafnarfirði hafi verið nálægt 4%.

Hótel myndi skila nálægt 2 milljörðum ári

Með ákveðnar forsendur í huga má gera ráð fyrir að gistinætur á nýju hóteli verði 65 þúsund á ári og útgjöld viðskiptavinanna nálægt 2 milljörðum á ári. Þar af fari um 1,2 milljarðar í gegnum gististaðinn en um 300 milljónir í útgjöld annars staðar í Hafnarfirði og 500 milljónir víðar á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, s.s. í skipulagðar ferðir, veitingahús, eldsneyti, verslun, söfn/sýningar og aðra afþreyingu.