Fréttir
  • Hafnarfjordur

Mikill viðsnúningur í rekstri

25. ágú. 2016

Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarbæjar fyrri hluta ársins var jákvæð um 483 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 134 milljónir króna. Jákvæður viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri milli ára en árshlutareikningur síðasta árs hljóðaði upp á halla um 389 milljónir króna. Greining á heildarrekstri og fjármálum sveitarfélagsins og þær aðgerðir sem gripið var til í framhaldinu eru farnar að skila væntum árangri.

Veltufé frá rekstri fyrri hluta árs 2016 nam um 1.651 milljón króna sem er um 15% af heildartekjum á meðan veltufé frá rekstri var um 293 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2015 eða um 3% af heildartekjum. Helstu frávik í rekstrarniðurstöðu árshlutareiknings 2016 eru að tekjur vegna staðgreiðslu eru umfram áætlun um 147 milljónir króna og fjármagnskostnaður um 282 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta. Tekjur námu alls 11.129 milljónum króna sem er 153 milljónir umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru, líkt og áður, stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þau 5.236 milljónum króna sem er 92 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 3.667 milljónir sem er 46 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð sem nam 1.738 milljónum króna, afskriftir voru 446 milljónir króna og fjármagnsliðir 809 milljónir króna. „Áhersla hefur verið lögð á að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í kjölfar rekstrarúttektar bitni ekki á þjónustu sveitarfélagins við íbúa og fyrirtæki heldur er hér um að ræða endurhugsun á þeim grunni sem rekstur sveitarfélagins byggir á samhliða breytingu á forgangsröðun og verkefnum með það að markmiði að bæta reksturinn og auka þjónustu. Ef við höldum rétt á spilunum, líkt og við höfum gert síðustu mánuði, þá munum við ná að borga niður óhagstæðar skuldir, auka þjónustu, huga frekar að viðhaldi og fara að framkvæma enn meira fyrir eigið fé á næstu misserum. Ég er ákaflega stoltur af mínu fólki og þessum árangri“ segir Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri.

Rekstur málaflokka í takt við áætlanir

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir. Stærsti málaflokkurinn er sem fyrr fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 5.004 milljónum króna á tímabilinu, til félagsþjónustu um 1.434 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 917 milljónum króna. Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri sveitarfélagsins milli ára sem sést best þegar samanburður er gerður á rekstrarafgangi. Halli fyrstu 6 mánaða 2015 var um 389 milljónir króna, samanborið við 483 milljóna króna rekstrarafgang nú í ár. ,,Rekstur Hafnarfjarðarbæjar gengur vel. Árshlutauppgjörið sýnir glögglega hve mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstrinum, sem einkum skýrist af markvissum hagræðingaaðgerðum núverandi meirihluta. Þessi jákvæða niðurstaða ber með sér að framundan er hvoru tveggja í senn, efling innviða og lækkun skulda bæjarsjóðs“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Heildareignir í júnílok námu samtals 49.023 milljónum króna og höfðu þær hækkað um 543 milljónir á tímabilinu. Heildarskuldir og -skuldbindingar námu samtals 40.243 milljónum króna. Áætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi niðurgreiðslu á skuldum á árinu og að skuldaviðmið verði komið niður fyrir 150% um mitt ár 2017. Það er mjög ánægjulegt að sjá grundvöll og jafnvægi rekstrarins styrkjast, enda hefur viðsnúningur í fjárhag bæjarins orðið að vera í algjörum forgangi hjá okkur undanfarin misseri. Þessi árangur gefur okkur ástæðu til bjartsýni á framhaldið“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar.

Árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði í dag og er hann nú aðgengilegur hér