Fréttir
  • Leikskolarinnspyting2

Mikil innspýting í leikskólastarf í Hafnarfirði

11. nóv. 2021

Umtalsverðu fjármagni veitt í aukin hlunnindi og bætt kjör leikskólastarfsfólks

Einn helsti áhersluþáttur fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar fyrir 2022 er að skapa enn betri og meira aðlaðandi starfsaðstæður í leikskólum bæjarins. Markmiðið er að efla leikskólastigið, ýta undir verðskuldaða virðingu þess, minnka álag og auka áhuga á starfsvettvanginum. Á meðal þeirra aðgerða sem ráðist verður í á næsta ári er eftirfarandi:

  • Starfsfólk leikskóla fá 75% afslátt af leikskólagjöldum
  • Stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra hækkar um 20-35% í öllum leikskólum til eflingar faglegu starfi
  • Hlunnindi og styrkir til leikskólastarfsmanna verða aukin m.a með hækkun á fastri yfirvinnu til allra og bíla- og símastyrk til stjórnenda
  • Handleiðsla og námskeið starfsfólks leikskóla verða efld
  • Undirbúin verði stækkun leikskólans Smáralundar um eina deild með það fyrir augum að lækka inntökualdur barna niður í 12 mánuði í skrefum næstu árin
  • Komið verði á sveigjanlegum vistunartíma, sem skref í styttri dvalartíma barna

 
„Við höfum síðustu mánuði og misseri verið að vega og meta leiðir og velta upp hugmyndum um hvernig við getum eflt leikskólana í Hafnarfirði og bætt aðstæður og kjör starfsmanna. Það var m.a. gert með samtali við hvern og einn leikskólastjóra í bænum. Niðurstaðan er að leggja áherslu á ofangreind atriði á nýju fjárhagsári. Með þessum aðgerðum viljum við svara kalli leikskólastarfsmanna og það umfram kjarasamninga. Tel ég að hér sé um mikil tímamót að ræða í þeim efnum. Umræða um leikskólamál í Hafnarfirði hefur verið óvægin og ekki til þess fallin að ýta undir ánægju eða áhuga á starfinu. Nú verðum við að leggjast á eitt og tryggja leikskólastiginu verðskuldaða viðurkenningu og áhuga. Aðgerðirnar hafa verið kynntar leikskólastjórum sem lýstu yfir mikilli ánægju og bjartsýni ríkir um að þær skili tilætluðum árangri,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.    

Hfj-19-07-09-16939_1636543979405Skortur á leikskólakennurum á landsvísu kallar á róttækari aðgerðir

LeikskoliNov2021Nú verður samfélagið að leggjast á eitt og tryggja leikskólastiginu verðskuldaða viðurkenningu og áhuga

Faglegu starfi og stjórnun gefið aukið vægi  - allt kapp lagt á að styrkja leikskólastigið 

Námssamningar og stuðningur við ófaglærða til að afla sér menntunar í faginu hefur um nokkurt skeið verið ein af grunnstoðum aðgerða bæjarins og hefur notið töluverðra vinsælda. Skortur á leikskólakennurum á landsvísu kallar á róttækari aðgerðir og í áætlunum komandi árs leggur sveitarfélagið enn meiri áherslu á námssamninga, styrki og námskeið og hækkun á fastri yfirvinnu til alls starfsfólks leikskólanna.  Með auknu hlutfalli stjórnunar aðstoðarleikskólastjóra um 20-35% í hverjum leikskóla er faglegu starfi innan skólanna gefið aukið vægi. Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár lagt kapp á að styrkja leikskólastigið og tryggja fyrsta skólastiginu betri starfsaðstæður. Með því að koma á sveigjanlegum vistunartíma sem stuðla ætti að styttri vinnuviku allra, jafnt barna sem og starfsfólks.  Dvalartími íslenskra barna er sá lengsti sem þekkist í heiminum. Með þessari nálgun er verið að huga að velferð barna og koma til móts við starfsumhverfi allra í leikskólum. Unnið verði að útfærslu á sveigjanlegum vistunartíma í samráði við leikskólastjóra.