Fréttir
 • Sh-36

Mikil ánægja meðal foreldra barna á frístundaheimilum

22. júl. 2021

Markmiðið er að hvert og eitt barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu

Frístundaheimilin eru fyrir börn í 1. – 4. bekk og starfa við alla grunnskóla í Hafnarfirði. Heimilin eru opin eftir að skóla lýkur til kl. 17 alla virka daga og bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf sem byggist á vali, hópastarfi, smiðjum og útiveru. Árlega svara foreldrar og forráðamenn þeirra barna sem nýta sér þjónustuna ánægjukönnun um starfsemina. Á vormánuðum var könnun send á foreldra 890 barna og var svarhlutfallið 88,52%. Niðurstöður könnunar eru ánægjulegar og starfsfólki og stjórnendum heimilanna á sama tíma hrós og hvatning til að gera enn betur.

93% svarenda telja barnið sitt mjög ánægt eð frekar ánægt á sínu frístundaheimili

93% svarenda telja barnið sitt mjög ánægt eða frekar ánægt á sínu frístundaheimili sem er hækkun um 10% milli ára. Ánægja þeirra foreldra og forráðamanna sem eru mjög ánægðir hækkar jafnframt úr 39% fyrir árið 2020 í 47% árið 2021. Í niðurstöðum kemur fram að foreldrar telja upplýsingaflæði frá frístundarheimili gott og að aðgengi að stjórnendum sé mjög gott. Samskipti við starfsfólk eru metin mjög góð eða frekar góð eða 89,32%. Ánægjulegar niðurstöður gefa í skyn og ýta undir þá tilfinningu að faglegt framlag, sveigjanleiki og metnaður starfsfólks frístundaheimilanna á tímum Covid19 hafi skilað sér alla leið til foreldra og forráðamanna þrátt fyrir skert aðgengi foreldra að frístundaheimilunum. Árið var óvenjulegt og þá ekki síst fyrir þær sakir að starfsárið, haustið 2020, hófst með takmörkunum og foreldrum óheimilt að koma inn í skólana og frístundaheimilin. Foreldrar barna í 1.bekk fengu því margir hverjir ekki tækifæri til að heimsækja frístundaheimilin eða hitta starfsfólkið fyrr en langt var liðið á starfsárið. Aðstandendur eru almennt mjög ánægðir eða frekar ánægðir með dagskrá frístundaheimilanna eða 85% og tölur sem snúa að aðstöðu frístundaheimilanna fara hækkandi.

Helstu niðurstöður könnunar eru eftirfarandi:

 • 93% foreldrar telja börnin sín fá næg tækifæri til útiveru
 • 50% foreldra finnst eigi að bjóða upp á aðstoð við heimanám
 • 64% foreldra telja að börnin hafi tækifæri á að fara í rólegt næði
 • 78% foreldra eru sammála því að faglega sé tekið á málum (um 20% hlutlausir)
 • 79% foreldra eru sammála um að í starfinu séu fjölbreytt viðfangsefni
 • 61% foreldra eru sammála um að á frístundaheimilinu fari fram mikilvægt uppeldistarf og 30% foreldrar segja hvorki né
 • 68% foreldra eru sáttir við núverandi gjaldskrá
 • 93% foreldra segja að barninu þeirra líði vel á frístundaheimilinu
 • Óánægja fer úr 6% niður í 2%
 • 67% barna á frístundaheimili nota frístundabílinn
 • 94% eru mjög ánægð eða frekar ánægð með frístundabílinn

Næstu skref – hvernig eru niðurstöður nýttar?

Niðurstöður könnunar eru mikilvægt innlegg í mat á starfi frístundaheimilinna og skipulag. Þær gefa mikilvægar upplýsingar um það starf sem vel er unnið og hvað má betur fara. Öll frístundaheimili fá sínar niðurstöður og opin svör sem innihalda bæði hrós og gagnlegar ábendingar og rýna stjórnendur og starfsfólk niðurstöðurnar og setja sér markmið.

Skráning á frístundaheimili skólaárið 2021-2022

Minnum foreldra og forráðamenn á skráningu barna sinna á frístundaheimili skólaárið 2021-2022. Frístundaheimilin í Hafnarfirði eru í boði fyrir börn í 1.-4. bekk og starfa við alla grunnskóla sveitarfélagsins. Hlutverk þeirra er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur með m.a. hópastarfi, smiðjum, útiveru og vali. Markmið frístundaheimilanna er að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu.

Skráning á frístundaheimili fer fram rafrænt í gegnum Mínar síður - sjá hér

Umsókn gildir eitt skólaár í senn (ágúst-júní) og þær umsóknir sem berast fyrir 15. júní eru í forgangi. Umsóknir sem berast eftir þann tíma geta farið á biðlista og eru ekki afgreiddar fyrr en í ágúst. Við skráningu er mikilvægt að tryggja að allar upplýsingar séu réttar og sérþarfir skráðar. Þegar barn fær vistun á frístundaheimili þá berst boð um vistun á það netfang sem fylgdi skráningu barns. Boð þarf að staðfesta með svari innan þriggja daga.

Nánari upplýsingar um frístundaheimili í Hafnarfirði

Skráning á frístundaheimili