Fréttir
  • Jolathorp9

Lukkuslaufur á ljósastaurum

25. nóv. 2016

Heppnir Hafnfirðingar vöknuðu upp við þá gleði í morgunsárið að rauðar slaufur biðu þeirra á ljósastaurum á leið þeirra til vinnu og skóla. Uppátækið má rekja til Jólaþorpsins í Hafnarfirði en lukkunúmer á einhverjum slaufanna innihalda óvæntan glaðning sem nálgast má í Jólaþorpinu á Thorsplani á opnunartíma þess.

Um miðja nótt í nótt fór hópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar á stjá og kom fyrir rauðum slaufum á fjölda ljósastaura í bænum. Slaufurnar bera kveðju til bæjarbúa ásamt merki bæjarins og lukkunúmeri en að baki nokkurra númera býr óvæntur glaðning sem nálgast má í Jólaþorpi Hafnarfjarðar. Í fyrra fór hópur á vegum bæjarins og skreytti hátt í 1000 bíla með fallegum jólakúlum sem sumar hverjar innihéldu lukkunúmer og veglegan glaðning. Tiltækið tókst vel og vakti mikla lukku meðal íbúa og gesta í sveitarfélaginu. Ákveðið var að endurtaka leikinn í ár og hefja aðventuna með góðum glaðningi. Jólaþorpið verður opið í kvöld frá kl. 18-20 en eftirleiðis laugardaga og sunnudaga frá kl. 12-17 allar aðventuhelgarnar. Jólaljós á Cuxhaventré á Flensborgarhöfn og tré á Thorsplani verða tendruð um helgina auk þess sem sjá má jólasveina og álfa spóka sig um Strandgötuna krökkunum og fjölskyldum þeirra til mikillar gleði. Syngjandi glaðir sölumenn í fagurlega skreyttum jólahúsum taka svo vel á móti gestum og gangandi með fjölbreyttri gjafavöru, hönnun og íslensku handverki.  

Dagskrá Jólaþorpsins í Hafnarfirði fyrstu aðventuhelgina má nálgast hér