Fréttir
  • IMG_6847

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

6. mar. 2018

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði verður haldin þriðjudaginn 13,. mars kl. 17 í Hafnarborg. Keppnin er nú haldin í 22. skipti í Hafnarfirði þar sem keppnin er elst og á sér upphaf en í dag er hún haldin nánast um allt land. Þessa dagana er keppninni að ljúka í hverjum skóla með hátíð þar sem tveir fulltrúar hvers skóla eru valdir á lokahátíðina í Hafnarborg. Á lokahátíðinni munu nemendur lesa upp ljóð og sögur en skáld keppninnar að þessu sinni eru Sigrún Eldjárn og Ólafur Jóhann Sigurðarson.

 

Á lokahátíðinni í Hafnarborg eru jafnfram veitt verðlaun í samsagnasamkeppni sem staðið hefur yfir í vetur fyrir nemendur í 8.-10. bekkjum grunnskólanna. Sömuleiðis verða veitt verðlaun fyrir mynd á boðskort lokahátíðarinnar en nemendur í 6. bekkjum grunnskólanna mega taka þátt í henni. Það er Ingibjörg Einarsdóttir, fyrrum skrifstofustjóri á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar sem stýrir hátíðinni en hún hefur jafnframt umsjón með verkefninu í Hafnarfirði eins og hún hefur gert frá fyrstu hátíðinni sem haldin var vorið 1997.

 

Stóra upplestrarkeppnin hófst sem þróunarverkefni í grunnskólum Hafnarfjarðar árið 1996 en það ár kom Ingibjörg einnig til starfa á Skólaskrifstofuna. Keppnin var mótuð í samstarfi við grunnskóla í Hafnarfirði fyrsta skólaárið en síðan fjölgaði þeim sveitarfélögum sem taka þátt í keppninni. Núna árið 2016 taka allir grunnskólar á landinu þátt í keppninni sem hafa nemendur í 7. bekk. Fá ef nokkur verkefni hafa haft slíka útbreiðslu í íslenskum grunnskólum.

 

Myndin er frá keppninni í fyrra sem fór fram í Hafnarborg og tókst sérstaklega vel