FréttirLíðan og velferð barna og unglinga í forgrunni í nýsamþykktri fjárhagsáætlun

7. des. 2017

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi. Áætlunin ber þess skýr merki að umbætur í fjármálum sveitarfélagsins undanfarin ár eru að skila sér til bæjarbúa. Framundan er uppbygging á þjónustu á hinum ýmsu sviðum sveitarfélagsins og er fjölskyldan í fyrirrúmi. Mikil áhersla er á umbætur í leik- og grunnskólum bæjarins, bæði hvað faglegt starf varðar sem og á húsnæði og aðbúnaði nemenda og starfsfólks.

Álagningarhlutföll fasteignagjalda eru lækkuð á íbúa og fyrirtæki og gjaldskrár hækka almennt ekki. Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og fjárfest verður fyrir eigið fé sveitarfélagsins og söluandvirði lóða. Viðhald á eignum bæjarins verður verulega aukið og framkvæmdir verða umfangsmeiri en í langan tíma.

AUKIN SAMVINNA SVIÐA MEÐ FJÖLSKYLDUVELFERÐ AÐ LEIÐARLJÓSI

Árið 2018 verður lögð áhersla á aukna samvinnu fagfólks á fjölskyldu- og fræðslusviði í þágu barna og ungmenna í sveitarfélaginu, með sérstaka áherslu á forvarnir. Áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun inni í leik- og grunnskólum með það að markmiði að leysa vanda barns áður en hann verður of stór og oft og tíðum illviðráðanlegur. Þetta er gert með líðan og velferð barna að leiðarljósi, til að bregðast við miklu álagi í skólastarfinu og breyta vinnulagi og efla forvarnarhlutverk barnaverndar í bænum. Að auki verður unnið að nýrri nálgun í meðferð barnaverndarmála og atvinnutækifærum fyrir fatlaða einstaklinga fjölgað í heimabyggð. 

AUKIN FRAMLÖG TIL LEIK- OG GRUNNSKÓLA, VIÐHALDS OG MENNINGARMÁLA

Þá er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir auknum útgjöldum umfram almennar verðlagshækkanir, samtals að fjárhæð um 588 milljónir króna. Um er að ræða meðal annars aukin framlög til leik- og grunnskóla, fjölskylduþjónustu, viðhalds eigna, menningarmála og umhverfisþjónustu.

Hafnarfjarðarbær leggur mikla áherslu að bæta starfsaðstæður í leikskólum og minnka álag á börn og starfsfólk. Færri börn verða í barnahópum inni á leikskólum og ný rýmisáætlun tekin þar upp. Undirbúnings- og yfirvinnustundum starfsmanna verður fjölgað á leikskólum og Hafnarfjarðarbær verður eitt af fyrstu sveitarfélögum landsins sem veitir fjármagni í C-hluta kjarasamnings grunnskólakennara    

ALMENN FJÁRHAGSAÐSTOÐ HÆKKAR UMFRAM VÍSITÖLU

Fjárhagsaðstoð er áætluð 180 milljónir króna í áætlun 2018. Í reglum sveitarfélagsins er gert ráð fyrir hækkun fjárhagskvarða árlega í samræmi við neysluvísitölu. Árið 2018 hækkar kvarðinn umfram vísitölu og fer úr 165.600 krónum í 177.600 krónur.

500 MILLJÓNIR KRÓNA TIL KAUPA Á FÉLAGSLEGU HÚSNÆÐI

Jafnframt er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2018 að upphæð 500 milljónir króna vegna kaupa á félagslegu húsnæði og 200 milljónir króna árið 2020 vegna kaupa á félagslegu húsnæði. Gert er ráð fyrir að verja 500 milljónum króna á ári árin 2018 til 2021 til að kaupa félagslegar íbúðir, eða samtals fyrir 2.000 milljónir króna. Þar af verði fjármagnað með lántöku samtals að upphæð 700 milljónir króna en að öðru leyti verði fjármögnunin með eigin fé sveitarfélagsins. Ekki er gert ráð fyrir annarri lántökum á tímabilinu 2018 til 2021.

BYGGINGU HJÚKRUNARHEIMILIS LOKIÐ

Í fjárhagsáætlun vegna ársins 2018 er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 400 milljónir króna vegna byggingar hjúkrunarheimilis. Fram til þessa hafa engin lán verið tekin vegna framkvæmdarinnar en gert hefur verið ráð fyrir að framkvæmdin verði fjármögnuð með lánum, þar sem um framkvæmd er að ræða fyrir ríkissjóð. Gert ráð fyrir lántöku á árinu 2019 vegna hjúkrunarheimilisins að upphæð 1.200 milljónir króna, eða samtals lántaka vegna hjúkrunarheimilis á árunum 2018 og 2019 að upphæð 1.600 milljónir króna.

 

STERKUR JÁKVÆÐUR REKSTUR HJÁ SVEITARFÉLAGINU

Vel hefur gengið að snúa rekstri sveitarfélagsins við frá rekstrarhalla árið 2015, en árið 2016 skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá Hafnarfjarðarkaupstað upp á 538 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða fyrri hluta árs 2017 var jákvæð um 907 milljónir króna. Áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu í lok árs 2017 um 554 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað um 3,4 milljarðar króna, sem er yfir 14% af heildartekjum. Útkomuspá bendir til að þetta gangi eftir og jafnvel betur en áætlunin gerir ráð fyrir.

HAGRÆÐING Í REKSTRI AÐ SKILA SÉR, ÍBÚUM TIL HAGSBÓTA

Á þessum grunni hefur fjárhagsáætlunarvinna vegna ársins 2018 og þriggja ára áætlun fyrir árin þar á eftir verið byggð. Rekstur ársins 2017 og fjárhagsáætlun 2018 endurspegla vel þau markmið sem bæjarstjórn setti sér með þeirri umbótavinnu sem fram fór árið 2015.

ÁLAGNINGARPRÓSENTUR LÆKKA OG LEIKSKÓLAGJÖLD STANDA Í STAÐ

Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að útsvar verði áfram 14,48% en það var lækkað úr 14,52% í 14,48% á árinu 2017. Jafnframt er gert ráð fyrir að álagningarprósenta fasteignaskatts og holræsa- og vatnsgjalds lækki á milli ára, þannig að álagning í krónum talið hækki einungis sem nemur verðlagsþróun þrátt fyrir umtalsverða hækkun fasteignamats. Fimmta árið í röð verða dvalargjöld á leikskólum þau sömu. Jafnframt er gert ráð fyrir að gjöld sem greidd eru til bæjarsjóðs hækki ekki á milli ára nema gjöld hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu, húsaleiga á félagslegu húsnæði og gjöld hafnarsjóðs sem hækka í samræmi við áætlaða hækkun á vísitölu.

HELSTU NIÐURSTÖÐUR Í FJÁRHAGSÁÆTLUN 2018

·         Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 742,3 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 156,6 milljónir króna.

·         Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 52,4 milljarðar króna í árslok 2018, skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 41,7 milljarðar króna og eigið fé um 10,7 milljarðar króna.

·         Áætlað veltufé frá rekstri A-hluta er um 2,5 milljarðar króna eða 10,3% og samantekið fyrir A- og B-hluta 3,5 milljarðar króna, eða um 13,6% af heildartekjum.

·         Áætluð er sala lóða í Skarðshlíð fyrir 1.620 milljónir króna og sala iðnaðarlóða fyrir 650 milljónir króna.

·         Áætlaðar fjárfestingar eru samtals að fjárhæð 5.020,5 milljónir króna. Um er að ræða ýmsar nýframkvæmdir, samtals að fjárhæð 1.749,5 milljónir króna, sem verða fjármagnaðar með veltufé frá rekstri. Framkvæmdir við nýjan grunnskóla í Skarðshlíð að fjárhæð 1.800 milljónir króna verða fjármagnaðar með sölu lóða í Skarðshlíð, kaup Húsnæðisskrifstofu á félagslegum íbúðum að fjárhæð 500 milljónir króna verða fjármögnuð með lántöku og framkvæmdir við hjúkrunarheimili á Sólvangsreit að fjárhæð 971 milljón króna verða fjármagnaðar með lántöku að hluta til, eða um 400 milljónir króna, og að hluta til með veltufé frá rekstri. Hjúkrunarheimilið er framkvæmd fyrir ríkissjóð, sem mun greiða fyrir afnot af hjúkrunarheimilinu með leigugreiðslum.

·         Almennt er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir árið 2018 haldist óbreytt.

 

SKULDAVIÐMIÐ NIÐUR Í 132% Í LOK 2018

Skuldahlutfall Hafnarfjarðarkaupstaðar verður samkvæmt áætlun um 163% í lok árs 2018 en var 170% í árslok 2016. Útkomuspá gerir ráð fyrir að skuldaviðmið verði undir 140% í árslok 2017. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018 verður skuldaviðmið í kringum 132% í lok þess árs.

UPPBYGGING OG FRAMKVÆMDIR ÁN LÁNTÖKU

Hér er stiklað á stóru en frekari upplýsingar er að finna á síðum 69 til 74 í greinargerðinni sem fylgir fjárhagsáætluninni og er hjálögð sem viðhengi við þessa fréttatilkynningu:

·         Söluandvirði lóða í Skarðshlíð verður nýtt til uppbyggingar á skóla í Skarðshlíð.

·         Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir við Ásvallabraut og Kaldárselsveg á árinu 2018 og lokið verði við framkvæmdina á árinu 2019. Samtals er kostnaður 1.050 milljónir króna.

·         Framkvæmdum við nýtt kennslu- og æfingahús á Ásvöllum lýkur á árinu 2018 og 340 milljónum króna verður varið í verkefnið á árinu 2018.

·         Gert er ráð fyrir að álíka upphæð verði varið í framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja næstu ár og gert hefur verið síðastliðin ár, eða 450 milljónum króna á ári. Fyrsti áfangi samkvæmt tillögunni er bygging knatthúss hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Í framkvæmdina verði varið 200 milljónum króna á árinu 2018. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki á árinu 2019 og þá verði varið í verkefnið 450 milljónum króna. Samtals gerir áætlunin ráð fyrir að framkvæmdin kosti um 720 milljónir króna.

·          

ALMENNAR UPPLÝSINGAR

·         1. október 2017 voru bæjarbúar 29.217.

·         Bæjarbúum hefur fjölgað jafnt og þétt og í áætlun ársins 2018 er reiknað með að íbúum fjölgi um 2,0%. Hafnarfjarðarkaupstaður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins, með heildarútgjöld um 24,8 milljarðar króna, áætlaðan launakostnað um 12,6 milljarðar króna og áætlaðan fjármagnskostnað um 1,7 milljarðar króna, eða sem nemur 6,5% af heildartekjum sveitarfélagsins.

·         Starfsmenn sveitarfélagsins eru um 1.800 og því er Hafnarfjarðarkaupstaður eitt af stærstu fyrirtækjum landsins, ef líkja má sveitarfélagi við fyrirtæki. Lífeyrisskuldbinding í árslok 2018 er áætluð 12,8 milljarðar króna, til samanburðar við að heildarlaunagjöld ársins eru áætluð 12,6 milljarðar króna.