FréttirFréttir

Lestur er lífsins leikur

1. feb. 2019

Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í samfélaginu og bág lestrarfærni getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með tækifæri á lífsleiðinni síðar meir. Samkvæmt niðurstöðum PISA hefur lesskilningur ekki aukist á Íslandi og einnig leiðir sama könnun líkur að því að stór hluti íslenskra barna getur lesið sér til gagns. Þessar staðreyndir voru kveikja þess að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði lögðu áherslu á að móta skýra og skilvirka læsisstefnu í Hafnarfirði sem næði til nemenda, kennara og foreldra. Unnið hefur verið markvisst eftir þeirri stefnu undanfarin ár sem hefur meðal annars skilað sér í aukinni samfellu milli skólastiga og lagt línurnar um mikilvægi læsis sem grunnstoð náms. 

Þann 25. janúar sl. var haldin uppskeruhátíð læsisverkefnis leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar í tilefni af endurútgáfu á LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR.  Nýja útgáfan er uppfærsla á fyrri áherslu frá árinu 2015. LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR er stefna, viðmið og verklag um málnotkun, lestrarkennslu og lestrarhæfni hafnfirskra barna. Á hátíðinni fengu skólastjórnendur og tengiliðir skóla við læsisverkefnið fyrstu eintökin af endurskoðuðu LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR afhent og þeim þakkað fyrir þá miklu vinnu sem starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir hafa lagt á sig við að koma læsisáherslunni í framkvæmd. 

LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR nær nú til frístundaheimila, Bókasafns Hafnarfjarðar, dagforeldra og foreldra yngstu barnanna. Menntamálastofnun hefur að auki gefið út opinber viðmið um læsi eftir aldri nemenda, en áður var Hafnarfjörður með eigin viðmið.

Á næstu dögum eiga foreldrar hafnfirskra barna von á því að fá nýju útgáfu af LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR í hendurnar. Einu eintaki verður dreift á hvert heimili og á það að koma með elsta barni hvers heimilis sem er í leik-/grunnskólum bæjarins í gegnum skóla þess.

Læsi er lykill að fróðleik og þekkingu sem mikilvægt er fyrir öll börn að ná valdi á. Með góðri lestrahæfni opnast fleiri námstækifæri og það opnast nýjir heimar af möguleikum. LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR er hafnfirskt verkefni sem miðar að því að sérhvert barn nái sem bestu valdi á lestri, hvetji til gefandi samskipta við aðra og áhuga á að leita þekkingar með forvitnum  huga.