Fréttir  • Viljayfirlysingsamgongumal

Leggjum mikla áherslu á úrbætur við gatnamót í Hafnarfirði

27. sep. 2018

Forsvarsmenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu á dögunum undir viljayfirlýsingu um viðræður um fjárfestingar í stofnvegum og hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar segir sameiginlega yfirlýsingu mikilvæga í áframhaldandi viðræðum við ríkið um næstu skref í samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og vill sjá skýra áætlun um öryggi vegfarenda.

Í sameiginlegri viljayfirlýsingu kemur fram að undirritaðir aðilar séu sammála um að stefna skuli að sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum með fjölbreyttum ferðamátum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Stofnaður hefur verið verkefnahópur undir forystu Hreins Haraldssonar, fyrrverandi Vegamálastjóra, sem mun skila tillögum 15. nóvember nk. Tillögurnar þurfa að taka tillit til markmiða í samgönguáætlun 2018-2033, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030 og áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir ánægjulegt að sjá í nýrri samgönguáætlun að framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar haldi áfram á næsta ári, en vill jafnframt sjá skýra áætlun um að öryggi vegfarenda verði tryggt frekar með því að það verkefni verði klárað fyrr en nú lítur út fyrir. „Við Hafnfirðingar leggjum líka mikla áherslu á að farið verði í úrbætur á gatnamótum við Lækjargötu annars vegar og Kaplakrika hins vegar og það fyrr en síðar. Ástandið á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð er algjörlega óviðunandi, þar sem um 45.000 bifreiðar aka í gegnum á degi hverjum og erfiðar umferðarstíflur myndast í miðjum bænum“. Í viljayfirlýsingunni er líka kveðið á um viðræður um framkvæmdir við almenningssamgöngur en Rósa segir að fyrsta verkefnið þar verði að komast að samkomulagi um fjármögnun og rekstur þeirra. „Brýnast í mínum huga á næstu árum er að leysa þær umferðarstíflur sem blasa við í dag og sjá fram á fjármögnun framkvæmda vegna þeirra“ segir Rósa. 

Skipuðum verkefnahópi er ætlað að skila tillögum sem eyða muni flöskuhálsum, til þess að bæta umferðarflæði og efla umferðaröryggi. Niðurstöður hópsins verða svo lagðar fyrir ríkisstjórn og bæjarstjórnir og borgarstjórn til staðfestingar en þær tillögur sem kalla á breytingu á samgönguáætlun munu fara til Alþingis.