Fréttir
  • Hafnarfjörður sumarkvöld
    Hafnarfjörður sumarkvöld

Launamunur minnkar hjá Hafnarfjarðarbæ

19. des. 2018

Hafnarfjarðarbær var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá jafnlaunavottun og vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu í ágúst 2017. Viðhaldsvottun sem framkvæmd var af BSI á Íslandi nú í desember leiðir í ljós lækkun á launamun um 1,4% frá því að jafnlaunamerkið var afhent. Í ágúst 2017 var launamismunur 4,8%, karlmönnum í hag, en mælist nú 3,4%.

Niðurstöður viðhaldsvottunar BSI (British Standards Institution) á Íslandi, sem er faggild skoðunarstofa, staðfesta að sveitarfélagið uppfyllir þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Í samantekt úttektaraðila kemur fram að mikinn einhug er að finna hjá stjórnendum og ábyrgðaraðilum jafnlaunakerfis Hafnarfjarðarbæjar gagnvart því að gera jafnlaunakerfið sem best úr garði fyrir bæði starfsmenn og sveitarfélagið. Ekki komu í ljós nein frávik en tilefni er til áframhaldandi útbóta sem unnið verður að á næstu mánuðum. „Það er okkur mikið keppikefli að launaákvarðanir hjá Hafnarfjarðarbæ heilt yfir endurspegli að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg störf óháð kyni og öðrum þáttum. Við erum á réttri leið og munum vonandi ná launajafnrétti og eyða kynbundnum launamun hjá sveitarfélaginu í mjög náinni framtíð. Niðurstöður viðhaldsvottunar eru afar ánægjulegar og sú mikla vinna sem hefur verið lögð í þetta langtímaverkefni greinilega að skila sér“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar eftir að niðurstöður voru kynntar henni og sviðsstjórum sveitarfélagsins. Niðurstaða launagreiningar gefur tilefni til lagfæringa á jafnlaunaviðmiðum og starfaflokkun ásamt tengingu þeirra við launagreininguna. Þessi atriði ásamt fleirum hafa þegar verið sett á aðgerðaráætlun sveitarfélagsins og verða úrbæturnar rýndar í næstu úttekt sem verður í ágúst 2019. Markmið með innleiðingu á jafnlaunavottun er að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ og uppfylla skyldur atvinnurekenda um að tryggja jafnan rétt kvenna og karla, greiða þeim jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Jafnlaunakerfið veitir stjórnendum skýrari sýn á launagreiningar, úrbótaverkefni, eftirfylgni með aðgerðum og staðfestingu þess að settri jafnréttisstefnu sé fylgt eftir.