Fréttir
  • Sudurbaejarlaug1GF

Komdu í sund! Opið til 22 mánudaga til fimmtudaga

4. júl. 2019

Sundlaugar Hafnarfjarðar eru þrjár talsins og hafa þær allar sín sérkenni og sjarma þannig að auðvelt er að finna laug við hæfi. Þannig eru Ásvallalaug og Suðurbæjarlaug sérstaklega vinsælar meðal fjölskyldufólks og eftir því sem börnin eru yngri þá verður Ásvallalaug, sem hýsir fjölbreyttar innilaugar og potta, oft fyrir valinu og þá sér í lagi yfir vetrartímann. Hitastig í sundlaugasal er yfirleitt um 30°. 

Aukinn opnunartími

Opnunartími sundlauga Hafnarfjarðar hefur verið að aukast síðustu ár. Þannig er hægt að fara í sund í Suðurbæjarlaug og Ásvallalaug frá kl. 6:30 - 22 mánudaga til fimmtudaga. Á föstudögum til 20 og laugardögum til 18. Á sunnudögum, til og með 11. ágúst, er opið í Suðurbæjarlaug til kl. 21 og Ásvallalaug til kl. 17. Sundhöll Hafnarfjarðar er lokuð frá og með 1. júlí til og með 11. ágúst. Á frídegi verslunarmanna, mánudaginn 5. ágúst, mun Ásvallalaug vera opin fra kl. 8-17 og Suðurbæjarlaug fra kl. 8 -21.

Suðurbæjarlaug stendur við Hringbrautina í Hafnarfirði, 25 metra útisundlaug sem samtengd er við barnalaug inni. Úti eru heitir pottar, vatnsgufa, bunusveppur, tvær vatnsrennibrautir og vinsæll göngustígur sem umlykur sundlaugargarðinn. 

Sudurbaejarlaug1GF

Sundmiðstöðin við Ásvallalaug hýsir svo nýjustu sundlaugina í Hafnarfirði sem opnuð var 2008. Sundmiðstöðin er ein sú stærsta á landinu með 50 metra sundlaug sem að jafnaði er skipt upp í 25 metra og 50 metra laug. Lyfta með sérútbúnum hjólastól, armbandi og fjarstýringu er aðgengileg öllum þeim sem almennt eiga erfitt með að komast ofan í stærri laugar. Í lauginni er jafnframt barnalaug og vaðlaug fyrir yngstu kynslóðina með tilheyrandi leikföngum. Innanhúss er einnig vinsæl vatnsrennibraut, þrír heitir pottar og eimbað. Utandyra eru svo tveir heitir pottar og mjög góð sólbaðsaðstaða þegar þannig viðrar. Starfsemin í sundmiðstöðinni er með fjölbreyttasta móti en þar má nefna auk hefðbundins skólasunds og sundæfinga félaganna, waterpolo, blak, æfingar köfunarfélaga, æfingar kajakræðara, námskeið fyrir verðandi og nýbakaðar mæður, námskeið í bættum sundstíl, ungbarnasund, vatnsleikfimi og þannig mætti lengi telja.

Sund1

Sundhöll Hafnarfjarðar að Herjólfsgötu er mikið notuð af eldra fólki og íbúum í nágrenni laugarinnar. Hún státar af 25 metra innilaug og tveimur rúmgóðum útipottum með nuddtækjum sem njóta mikilla vinsælda auk þess sem gufuböðin þykja einstök og öðruvísi. Sundhöllin er þekkt fyrir sitt rólega andrúmsloft á meðan fjörið er aðeins meira í hinum tveimur laugunum. ATH...Sundhöllin er lokuð til og með 11. ágúst.

Sundhöll Hafnarfjarðar