Fréttir
  • HreyfivikaUMFI2020

Komdu í hrausta liðið! Hreyfivika UMFÍ 25. - 31. maí

18. maí 2020

Nú styttist heldur betur í stuðið, vorboðann ljúfa. Hreyfivika UMFÍ hefst 25. maí næstkomandi og stendur til 31. maí. Boðberar hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ eru byrjaðir að undirbúa allskonar viðburði og leiki um allt land og má því búast við gríðarlegu sprikli í vikunni. 

Boðberar hreyfingar

Á síðasta ári tóku fyrirtæki landsins í fyrsta sinn þátt í Hreyfiviku UMFÍ sem var mjög skemmtileg nýbreytni. Boðberar hreyfingar innan fyrirtækja er starfsmaður þess, sem hvetur aðra til að hreyfa sig, skapar svigrúm fyrir fólk til að velja hreyfingu og kemur með hugmyndir að skemmtilegri hreyfingu fyrir aðra. Á síðasta ári kættu boðberar hreyfingar innan fyrirtækja samstarfsfólk sitt með því að brjóta vinnudaginn upp og hreyfa sig með öðrum. Ef um stór fyrirtæki er að ræða getur hreyfingin haft mikil og góð áhrif á vellíðan og starfsanda. Á síðasta ári tóku 20.000 manns þátt í Hreyfiviku UMFÍ.  Fjallað er um þátttakendur í fréttum á vef www.umfi.is, á Facebook og Instagram. Einnig er blásið til skemmtilegs myndaleiks undir myllumerkinu #mínhreyfing þar sem nöfn fyrirtækja sem taka þátt koma fram.

Komdu öðrum á hreyfingu

UMFÍ gerir allt til að hjálpa boðberum hreyfingar og hefur m.a búið til léttan og skemmtilegan leik svo allir geta verið með; Hreystileikur fyrir boðberana. Á meðal æfinga í leiknum eru hnébeygjur við ljósritunarvélina, armbeygjur við kaffivélina og margar fleiri. UMFÍ er með hugmyndina en boðberar og starfsfólk útfæra hreyfinguna. Bingó!

Hafnarfjarðarbær hvetur einstaklingar, fyrirtæki, skóla og stofnanir til að skella sér með í leikinn og rífa upp góða skapið. Verum saman í þessu og drífum aðra með! 

Hægt er að skrá sig til leiks á www.hreyfivika.is

Verkefnastjóri og tengiliður Hreyfiviku UMFÍ er Sabína Steinunn Halldórsdóttir:  sabina@umfi.is   og s. 568-2929