Fréttir
  • Jolathorp6

Jólaævintýrið hefst í Hafnarfirði

22. nóv. 2016

Jólaævintýrið hefst í Hafnarfirði – tendrun ljósa og Jólaþorp

Um helgina hefjast jólin formlega í Hafnarfirði með opnun Jólaþorps og tendrun ljósa á jólatrjám á Thorsplani og Flensborgarhöfn. Á Thorsplani hafa nú risið sautján fagurlega skreytt jólahús þar sem syngjandi glaðir sölumenn bjóða fjölbreytta gjafavöru, hönnun og íslenskt handverk. Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opið alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni frá kl. 12-17. Opnunarhátíð stendur yfir frá kl. 18 – 20 á föstudagskvöld með jólaskemmtun, flugeldasýningu og jólasveinum.

Jólaþorpið – heimilisleg jólahátíð á Thorsplani

Um helgina hefst jólaævintýrið í Jólaþorpinu á Thorsplani. Jólaþorpið er opið allar helgar á aðventunni og opnar nú í ár föstudaginn 25. nóvember kl. 18:00. Skipulögð dagskrá verður á sviði til klukkan 20 þennan föstudag þar sem Felix Bergson heldur uppi jólafjörinu. Hann og Sigrún Þorleifsdóttir – betur þekkt sem Dúna í Blómabúðinni Burkna – munu saman tendra ljósin á jólatrénu á Thorsplani og telja niður með gestum á fyrsta degi Jólaþorpsins. Jólasveinar og Grýla verða á svæðinu, söngur og skemmtun á sviði og flugeldasýning í boði Fjarðar sem Björgunarsveit Hafnarfjarðar sér um. Í litlu fagurlega skreyttu jólahúsunum verður í boði ýmiss gjafavara, handverk og íslensk hönnun.  Í ár geta líka fjölskyldur og vinahópar á ferð sinni um bæinn látið smella af sér mynd í Firði verslunarmiðstöð til minningar um notalega stund í Hafnarfirði á aðventunni.

Jólaskemmtun og tendrun á Cuxhaventré

Klukkan 15 fyrsta laugardag aðventunnar verða ljós á Cuxhaventrénu á Flensborgarhöfn tendruð og býður Hafnarfjarðarhöfn til skemmtunar á hafnarsvæðinu sem einkennist af léttri tónlist, leikskólakór og jólasveinum. Að lokinni dagskrá er gestum boðið að þiggja heitt súkkulaði og kleinur á Kænunni. Vinabæjarsamskipti Hafnarfjarðarbæjar og Cuxhaven hafa varað allt frá því í september 1988 eða í nær þrjá áratugi. Þau hafa verið með afar fjölbreyttu sniði þar sem vinabæjarfélög íbúa hafa verið drifkraftur í samstarfi og samvinnu á sviði menningar, íþrótta, atvinnulífs og stjórnsýslu. Hafnarfjarðarbær er eina sveitarfélagið á Íslandi sem heldur uppi vinabæjarsamskiptum við Þýskaland og einn þáttur í reglulegu samstarfi er að Cuxhaven færir bænum veglegt jólatré að gjöf fyrir aðventuna ár hvert og hefur því tré verið komið upp á hafnarsvæðinu við minnismerkið um fyrstu lúthersku kirkjuna á Íslandi sem þýskir kaupmenn reistu hér í Hafnarfirði fyrir miðbik 16 aldar. Þetta tré verður reist á höfninni nú um helgina.

Hafnfirðingar bjóða heim á aðventunni

Thorsplanið verður fullt af lífi og fjöri í kringum jólin og litlu jólahúsin orðin landsþekktur söluvettvangur lista, handverks og hönnunar. Eftir 14 ár hefur Jólaþorpið náð að heilla landsmenn alla og í auknu mæli ferðamennina sem kjósa að sækja landið heim. Hafnfirðingar sjálfir eru í auknu mæli líka farnir að nýta tækifærið og vettvanginn sem þarna skapast til heimboða á aðventunni. Þannig hópast heilu stórfjölskyldurnar og vinahóparnir í miðbæ Hafnarfjarðar, kíkja í búðir, á listasýningu, í litlu jólahúsin eða söfn bæjarins gagngert til að hafa það huggulegt á aðventunni.