Fréttir
  • Flottir leikskólakrakkar

Innritunaraldur í leikskóla lækkaður, útgjöld barnafjölskyldna minnka

29. maí 2015

Mánudaginn 1. júní, á 107 ára kaupstaðarafmæli bæjarins, verða lagðar fram í fræðsluráði tillögur sem miða m.a. að því að lækka innritunaraldur barna í leikskóla og hækka mótframlag til foreldra barna hjá dagforeldrum. Með þessum tillögum er reglunum breytt þannig að yngri börn komast inn í leikskóla og stefnt er að því að börn verði 18 mánaða á árinu sem þau verða innrituð í stað tveggja ára eins og kveðið er á um í núgildandi reglum.

Yngri börn á leikskóla

,,Markmiðið er að setja fjölskylduna í forgang, bæta þjónustuna og gera það sem hægt er til að lækka álögur á íbúa bæjarfélagsins.  Fyrsta skrefið í þeim efnum nú er að koma verulega til móts við foreldra ungra barna. Það verður gert með því að lækka innritunaraldur í leikskóla,  hækka mótframlag til foreldra barna hjá dagforeldrum og svo er ætlunin að fara af stað með tilraunaverkefni um sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla,“  segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs.

Tillögurnar gera ráð fyrir að 1. ágúst 2015 verði börn fædd í janúar og febrúar 2014 innrituð í leikskóla bæjarins, innritað verði aftur 1. febrúar 2016. En stefnt er að því að börn verði innrituð í leikskóla á árinu sem þau verða 18 mánaða.

Gjaldfrjáls leikskóli

Í haust hækka niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldri úr 40.000 kr. í 50.000 kr á mánuði og til viðbótar kemur mótframlag við 18 mánaða aldur barns þar til það fær leikskólavist. Einnig verður hafinn undirbúningur að tilraunaverkefni um gjaldfrjálsan leikskóla og verða 1-2 leikskólar fengnir til að taka þátt í því. Reynsla þeirra af verkefninu verður síðan höfð til hliðsjónar þegar ákveðið verður um slíkt skipulag til framtíðar.

Með þessu er verið að taka fyrstu skrefin í að lækka útgjöld barnafjölskyldna og er frekari breytinga á gjöldum að vænta áður en langt um líður, en sérstakur starfshópur þar um er enn að störfum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir .

Hér er hægt að sjá tillögurnar.