Fréttir
 • IMG_0865

Í bæjarfréttum er þetta helst...

23. jún. 2017

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Ég hef ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðamót til að segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vil ég upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.  

Sumarið er komið í allri sinni dýrð. Frábær sjómannadagshelgi við Flensborgarhöfnina að baki, hátíðarhöld á þjóðhátíðardag vel heppnuð og Víkingahátíð við Fjörukrána vel sótt að vanda. Hátíðarhöld sem þessi eru veisla fyrir alla fjölskylduna og gestum þökkum við fyrir komuna og öllum þeim sem komu að skipulagningu og framkvæmd innilega fyrir þeirra framlag. Hátíðarhöld sem þessi skipa stóran sess í hugum Hafnfirðinga og upplifunin verður hluti af æskuminningum barnanna sem koma og upplifa eitthvað nýtt og spennandi.

Við erum öll í sama flotta liðinu

Fjölbreytt sumarstarf fyrir börn og unglinga fer fram að vanda víða um bæinn nú í sumar og í Vinnuskólanum hafa fjölmargir kraftmiklir og duglegir einstaklingar hafið störf við að snyrta bæinn og sinna frístundum barnanna í bænum. Við leggjum mikla rækt við að hafa bæinn okkar sem snyrtilegastan og festum nýverið kaup á ruslasugu sem verður nýtt í hreinsunarverkefni í miðbænum. Fjölmargir íbúar með græna fingur hafa lagt hönd á plóg í sínu umhverfi en eimitt með samstilltu átaki íbúa og starfsmanna verður bærinn snyrtilegur á að líta fyrir okkur öll sem og þá gesti sem sækja okkur heim. Nú á vorönn hef ég ásamt fríðu föruneyti heimsótt alla leikskóla í Hafnarfirði og var sambærileg heimsókn farin í alla grunnskóla Hafnarfjarðar á síðasta ári. Heimsóknirnar hafi verið afar gagnlegar og að gott samtal átt sér stað. Hafnarfjarðarbær er stór vinnustaður sem kallar á gott skipulag og samstarf og höfum við í þessum heimsóknum lagt áherslu á mikilvægi þess að tala saman, koma hugmyndum okkar um þjónustubætingu á framfæri og stilla saman strengi allra starfseininga Hafnarfjarðarbæjar í öllu tilliti. Við erum öll í sama flotta liðinu! Í maí veittum við starfsfólki sem hefur náð 15 ára og 25 ára starfsaldri viðurkenningu annað árið í röð. Í heild heiðruðum við 45 einstaklinga að þessu sinni sem samanlagt hafa starfað hjá sveitarfélaginu í 1316 ár.

Vegir liggja til allra átta – vinabæjarmót og heilsuefling

Á afmælisdegi bæjarins þann 1. júní síðastliðinn tók Hafnarfjarðarbær á móti fulltrúum frá fimm vinabæjum sem mynda Norrænu vinabæjarkeðjuna. Hafnarfjarðarbær er stoltur af samstarfinu sem hefur skapað umræðugrundvöll um hin ýmsu verkefni sveitarfélaganna. Við þetta tækifæri var afhjúpaður vegvísir sem vísar á vinabæi okkar um víða veröld og sýnir fjarlægðina þangað. Þema mótsins var heilsueflandi samfélag og nýttum við tækifærið til að deila þekkingu og reynslu okkar af hinum ýmsu heilsueflandi verkefnum og fengum innsýn inn í verkefni sem vinabæir okkar vinna að á sama vettvangi. Í sumar verður Suðurbæjarlaug opin til 22 alla virka daga og til kl. 21 á sunnudögum. Aukið aðgengi að sundlaugum er á meðal þess sem lögð er áhersla á í nýlegri Heilsustefnu Hafnarfjarðar og aðgerðaráætlun hennar og einn liður í því að auka vellíðan íbúa Hafnarfjarðar. Í sumar er því tilvalið að heimsæka sundlaugarnar eða einhverja af fjölmörgum af þeim útivistarperlum sem við búum að í Hafnarfirði. Hvernig væri að ganga á Helgafell, grilla á Víðistaðatúni, taka þátt í Ratleik Hafnarfjarðar, hjóla eftir Strandstígnum, fara í sund eða sækja góða bók á Bókasafnið í sumar? Svo er frítt á öll söfnin okkar. Sumarið er líka tími sumarfría þó að starfsemi bæjarins sofi aldrei. Ég vona að starfsmenn og íbúar Hafnarfjarðar komi endurnærðir til baka eftir verðskuldað frí og njóti sumarsins!
Meðfylgjandi er yfirlit yfir fréttir í maí og það sem af er júní okkur öllum til upplýsinga:
 • Ert þú með græna fingur? Í ár býður Hafnarfjarðarbær upp á fjölskyldugarða sem eru opnir öllum bæjarbúum óháð aldri. Frábært tækifæri fyrir fjölskyldur og aðra til að rækta sitt eigið grænmeti
 • Nýtt hjúkrunarheimili tilbúið í september 2018. Hafnarfjarðarbær hefur gengið til samninga við Munck Íslandi vegna byggingar á nýju hjúkrunarheimili á Sólvangi. Tilboð í verkið bárust frá fjórum aðilum og reyndist tilboð Munck Íslandi vera lægst.
 • 45 viðurkenningar veittar fyrir 1316 ár í starfi. Starfsaldursviðurkenningar til starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar voru veittar við hátíðlega athöfn í Hafnarborg í 17. maí. 45 einstaklingar tóku á móti viðurkenningu og eiga þessir einstaklingar allir það sammerkt að hafa starfað hjá bænum í 25 ár eða meira, samanlagt í 1316 ár
 • 16% launahækkun í Vinnuskóla. Laun ungmenna í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sem fædd eru 2001, 2002 og 2003 verða hækkuð sem nemur 16% sumarið 2017. Bætist þessi hækkun ofan á hækkun á launum vinnuskóla sumarið 2016 en þá voru launin hækkuð um 15%.
 • Ný handbók um snemmtæka íhlutun. Leikskólinn Norðurberg hefur gefið út handbók um snemmtæka íhlutun í málörvunarstarfi leikskóla. Handbókin var kynnt nýlega á sérstökum kynningarfundi í skólanum að viðstöddum fjölda gesta. Handbókin, Snemmtæk íhlutun í málörvun leikskólabarna – undirbúningur fyrir lestur, er afrakstur þróunarverkefnis í leikskólanum sem átt hefur sér stað síðustu ár
 • Ný hugmyndafræði um íbúarekið húsnæði í Hafnarfirði. Á fundi bæjarráðs í júní voru lögð fram drög að stofnsamþykktum íbúarekins leigufélags í bænum sem hefur það að markmiði að lækka leiguverð, draga úr yfirbyggingu og auka aðkomu og þátttöku íbúanna sjálfra
 • Ávarp fjallkonu Hafnarfjarðar 2017. Eva Ágústa Aradóttir var fjallkona Hafnarfjarðarbæjar á þjóðhátíðardaginn. Eva er fyrsta transkonan sem gegnir hlutverki fjallkonu við opinber hátíðarhöld. Eva, sem er Hafnfirðingur í húð og hár, las ljóð eftir Bryndísi Björgvinsdóttur.
 • Um 200 ungir dorgveiðimenn. Yfir 200 dorgveiðimenn á aldrinum 6-12 ára mættu á Flensborgarbryggju í Hafnarfirði í dag, munduðu veiðarfærin og kepptust við að veiða sem flesta og furðulegasta fiska. Mohammad El Said sjö ára fékk verðlaun fyrir að fanga stærsta fiskinn en hann veiddi þyrskling sem vó hátt í 600 gr.
 • Samningur við Specialisterne á Íslandi. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar endurnýjaði samning við Specialisterne á Íslandi á fundi sínum þann 2. júní s.l. Markmið samkomulagsins er að veita starfsþjálfun og gera starfsmat fyrir fatlaða atvinnuleitendur. Samstarfið hefur gengið vel og er mikilvægur hlekkur í því skyni að auka atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði.
 • Viðurkenningar fyrir skilvirka stjórnun og fjölmenningarstarf. Frá árinu 2008 hefur fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar veitt 1-3 viðurkenningar á ári til einstakra skólaverkefna sem þykja til fyrirmyndar og einkennandi fyrir skapandi skólastarf í Hafnarfirði. Í ár hlutu þrír skólar viðurkenningu. Öldutúnsskóli og leikskólinn Álfaberg fyrir góðan starfsanda og skilvirka stjórnun og Hvaleyrarskóli fyrir fræðslu og fjölmenningarstarf á skólasafni.
 • Ný sumaropnun í Suðurbæjarlaug. Frá og með deginum í dag geta íbúar og gestir í Hafnarfirði notið sín í sundi í Suðurbæjarlaug til kl. 22. Sumaropnun Suðurbæjarlaugar hefur tekið gildi og mun vera í gildi til og með 13. ágúst. Suðurbæjarlaug verður opin til kl. 22 alla virka daga og til kl. 21 á sunnudögum. Óbreyttur opnunartími verður á laugardögum.
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar