Fréttir
  • 12928240_10209263527415058_7506154370771348953_n--1-

Hvatningarverðlaunin 2016

8. apr. 2016

Hvatningarverðlaun Foreldraráðs Hafnarfjarðar voru afhent síðastliðinn þriðjudag. Athöfnin fór fram í Bæjarbíói í Hafnarfirði fyrir fullu húsi. Frestur til að senda inn tilnefningar rann út mánudaginn 14. mars og bárust í heild 12 tilnefningar varðandi 11 einstaklinga, sem þótt hafa skarað framúr í vinnu sinni í þágu barna og ungmenna í Hafnarfirði.  Val til verðlauna var í höndum stjórnar Foreldraráðs Hafnarfjarðar. Arnfríður Arnardóttir og Jóhann Óskar Borgþórsson hjá  hlutu flest atkvæði og þar með Hvatningarverðlauna Foreldraráðs Hafnarfjarðar árið 2016. Verðlaunagripurinn sem þau fengu var verkið "Álfar og menn" eftir myndlistakonuna Soffíu Sæmundsdóttur.  

Aðrir sem tilnefningu hlutu eru:

  • Agnes Alda Magnúsdóttir, umsjónarmaður frístundar Barnaskóla Hjallastefnunnar
  • Anna Sigurðardóttir, umsjónarmaður bókasafns Hraunvallaskóla og Facebook-síðu skólans
  • Elías Jónsson, þjálfari 5.flokks karla í handbolta hjá Haukum
  • Klaus Jurgen Okh, sundþjálfari hjá SH
  • Kristmundur Guðmundsson, yfirþjálfari 6. – 8. fl. hjá knattspyrnudeild FH
  • Ómar Friðriksson, þjálfari barna í handbolta hjá FH
  • Sara Pálmadóttir, rekur Mosann (félagsstarf Hraunvallaskóla) og Hraunsel (barnagæslu)
  • Sigurður Már Guðmundsson, skólaliði Hraunvallaskóla
  • Þorsteinn Emilsson, húsvörður, matráður og starfsmaður frístundar Barnaskóla Hjallastefnunnar

Dýrmætur samkomustaður fyrir hafnfirsk ungmenni

Arnfríður og Jóhann hljóta verðlaunin fyrir aðkomu sína að stofnun Brettafélags Hafnarfjarðar og framlag þeirra til þess félags. Brettafélag Hafnarfjarðar var stofnað 9. júlí 2012 og gekk í ÍBH 4. desember 2015. Starfið hefur alla tíð verið þróttmikið. Brettafélagið eykur á fjölbreytni í tómstundum fyrir börn og unglinga í Hafnarfirði og er dýrmætur samkomustaður fyrir mörg ungmenni í bænum. 

"Týndum börnum" fer fækkandi 

Í tengslum við afhendingu Hvatningarverðlauna Foreldraráðs Hafnarfjarðar var efnt til fræðslufundar um fíkniefni og ungmenni í Hafnarfirði.  Guðmundur Fylkisson lögreglumaðurinn sem leitar að „týndu börnunum“, Helgi Gunnarsson lögreglufulltrúi og Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar, fjölluðu um stöðu mála hjá unga fólkinu okkar í Hafnarfirði og hvaða leiðir foreldrar geta farið til að passa betur upp á ungviðinn sinn.  Ný gögn sýna að heilt yfir þá er vímuefnaneysla barna í Hafnarfirði að minnka en á sama tíma þá hefur kannabisneysla í 9. bekk verið að aukast.  Verið er að vinna frekari greiningu á aukinni kannabisneyslu gagngert til að einangra vandann þannig að hægt sé að vinna á málunum í samstarfi við skóla og foreldra. 

Aðeins um foreldraráð Hafnarfjarðar

Foreldraráð Hafnarfjarðar er samráðsvettvangur og málsvari foreldra grunnskólabarna í Hafnarfirði. Hlutverk Foreldaráðs er að vinna að sameiginlegum málefnum skólanna og gefa umsagnir um ýmis mál er varða skóla- og fjölskyldumál. Foreldraráð vinnur í nánu samstarfi við foreldrafélögin í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar.