Fréttir
  • Hvatningarverdlaunin2019

Hvatningar- og foreldraverðlaunin til Víðistaðaskóla

12. apr. 2019

Hvatningarverðlaun foreldraráðs 2019 fóru í skaut Víðistaðaskóla og Félagsmiðstöðvarinnar Hraunsins, en verðlaunin voru afhent í gærkvöldi. Að baki Jafnréttisdögunum stóðu þau Salka Sigurðardóttir, Þórunn Þórarinsdóttir, Agnes Lára Þorleifsdóttir, Ylfa Þórhildur Guðmundsdóttir, Tinna Sól Þórsdóttir, Sigrún Ásta Gunnarsdóttir og Gunnar Smári Unnarsson. Jafnréttisdagarnir fengu í verðlaun fyrirlestur að eigin vali um jafnréttismál. Foreldraverðlaun foreldraráðs 2019 hlutu foreldrar 10. bekkjar Víðistaðaskóla. Foreldraverðlaunin var pítsaveisla í boði Dominos fyrir nemendahóp foreldranna.

Stefán Már Gunnlaugsson, formaður foreldraráðs Hafnarfjarðarbæjar, setti hátíðina, sem hófst á undurfallegum söng Barna- og unglingakórs Hafnarfjarðarkirkju. Rósa Guðbjartsdóttir ávarpaði síðan viðstadda og síðan tóku við verðlaunaafhendingarnar. Í lok dagskrár stigu á stokk með fræðsluerindi, þær Linda Hrönn Helgadóttir, með „Foreldrasamstarf – áreiti eða ávinningur“ og Anna Steinsen, með „Sjálfstraust og vellíðan barna og unglinga“.


Rökstuðningur sem fylgdi tilnefningu verðlaunanna

Hvatningarverðlaunin 2019

Jafnréttisdagar Víðistaðaskóla voru haldnir hátíðlegir 18.-20.mars. Þeir runnu undan rifjum jafnréttisráðs Hraunsins sem er uppbyggt af áhugasömum nemendum um jafnréttismál í skólanum. Í samstarfi við skólann voru þeir haldnir fyrir hádegi 18.mars, eftir hádegi 19. mars og lokahóf í hádeginu 20.mars. Jafnréttisdagar byggðust upp á hinum ýmsu fyrirlestrum frá Ástráði, Karlmennskunni, Druslugöngunni, Út með það og UN women. Afrakstur daganna var samvinna nemenda, félagsmiðstöðvarinnar Hraunsins og Víðistaðaskóla sem unnu saman að vitundarvakningu um jafnréttismál í skólanum.

Foreldraverðlaunin 2019

Foreldraverðlaun foreldraráðs 2019 hlutu foreldrar 10. bekkjar Víðistaðaskóla. Á hverju ári setur 10. bekkur í Víðistaðaskóla upp söngleik en í ár var söngleikurinn Fútlúz settur upp með pompi og prakt 15.-17.febrúar 2019. Aðdragandinn að slíkum söngleik er langur og samstarf skóla og foreldra er mikið. Í ár tóku foreldrar mikinn þátt og stóðu við bakið á börnum sínum á einstakan hátt. Foreldrar kölluðu til aukins samstarfs við skóla og með reglulegum fundum, miðlun upplýsinga til annarra foreldra, skipulagði með nemendum umgjörðina í kringum söngleikjahelgina og pössuðu upp á leikara, söngvara, dansara og hljómsveitina á löngum æfingum með peppi, klapp á bakið, uppbyggjandi orðum ásamt alls kyns snatti og mat og drykk svo öllum liði vel á álagstíma. Þeir foreldrar sem stóðu fremstir í flokki voru: Kristjana Ósk Jónsdóttir, Oddný Ármannsdóttir og Brynhildur Hauksdóttir, Bergþóra Sigurðardóttir, Ragnheiður Anna Georgsdóttir og Lovísa Agnes Jónsdóttir.