Fréttir
  • IMG_8774

Hvað fær nemendur til að ljóma?

11. nóv. 2019

Menningarmót var haldið hjá nemendum á miðstigi í Hvaleyrarskóla í lok síðustu viku. Þann dag buðu nemendur foreldrum sínum og samnemendum að koma og skoða afrakstur vinnu sinnar undanfarnar vikur þar sem þeir unnu fjölbreytt verkefni sem tengjast persónulegri menningu þeirra. 

Fjölbreytt og ólík menning skapar mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu

Menningarmótsverkefnið er þverfagleg aðferð hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbeytta menningarheima þátttakenda. Markmiðið með Menningarmótinu er m.a. að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi og gera þátttakendum ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu.

Einkenni persónulegrar menningar

Nemendur fluttu söng- og tónlistaratriði ásamt dansi og upplestri sem einkenndist af miklum metnaði og leikni í að koma fram. Gestum var boðið í heimsókn í skólastofur nemenda þar sem tækifæri gafst til að kynnast þeim betur. Þar kynntu nemendur persónulega menningu sína, þann bakgrunn sem þeir hafa, hvað vekur áhuga þeirra og eins og svo fallega var komist að orði; hvað fær þá til að ljóma. Í samtali við nemendur kom bersýnilega í ljós að þeir höfðu gaman af því að vinna verkefnið, segja frá því sem einkennir persónulegu menningu þeirra og því sem skiptir þá mestu máli. Hugmyndasmiður og verkefnastjóri Menningarmótsins er Kristín Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni. Nánari upplýsingar um menningarmótsverkefni má finna á menningarmot.is

Hægt er að skoða fleiri myndir frá menningarmóti á Facebook síðu Hafnarfjarðarbæjar