Fréttir  • IcelandairMai2022

Húsnæði Icelandair verður hið glæsilegasta

13. maí 2022

Gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt húsnæði hefjist á þessu ári 

Hafnarfjarðarbær og Icelandair undirrituðu í upphafi árs 2021 viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu á höfuðstöðvum Icelandair að Flugvöllum 1 í Hafnarfirði. Fyrirtækið hefur til nokkurra ára verið með hluta starfsemi sinnar að Flugvöllum og hluta við Reykjavíkurflugvöll. Í kjölfar undirritunar viljayfirlýsingar 2021 tók við ítarleg greiningarvinna, hugmyndavinna og hönnun hjá Icelandair sem nú sér fyrir endann á. Ef allt gengur eftir má gera ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt húsnæði hefjist á þessu ári.

Starfsstöðvar Icelandair á höfuðborgarsvæðinu sameinast í Hafnarfirði

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hittust nýverið til að fara yfir stöðu mála. Vinna við teikningar af framtíðarhúsnæði Icelandair að Flugvöllum 1 er á lokametrunum. Ljóst er að húsnæði Icelandair í Hafnarfirði verður hið glæsilegasta. Byggt verður við núverandi byggingu og komið upp aðlaðandi og vistvænni aðstöðu bæði fyrir starfsfólk og gesti. Ráðgert er að uppbyggingum og flutningi starfsfólks ljúki 2024. Með flutningi hafa allar starfstöðvar Icelandair á höfuðborgarsvæðinu verið sameinaðar.

IMG_3757

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair hittust nýverið til að fara yfir stöðu mála. Hér með Sigrúnu Össurardóttur og Elísabetu Helgadóttur.  

Samkeppnishæft umhverfi og góðar aðstæður fyrir fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri

Icelandair er í hópi fyrirtækja sem ákveðið hafa að flytja starfsemi sína að hluta eða öllu leyti til Hafnarfjarðar. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 4. maí lóðarvilyrði fyrir sex lóðum í hverfinu. Engar lóðir eru lausar til úthlutunar í hverfinu eins og er en gert er ráð fyrir að rúmlega 50 lóðir í seinni hluta uppbyggingar í Hellnahrauni 3. áfanga komi til úthlutunar á næstu dögum. Samþykkt lóðarvilyrði ná til þessara lóða. Stefna bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að bjóða upp á mjög samkeppnishæft umhverfi og góðar aðstæður fyrir fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri virðist vera að skila sér. Starfsemi Icelandair og húsnæðið í heild mun verða enn ein lyftistöngin fyrir ört stækkandi íbúða- og atvinnuhverfi á fallegum og aðgengilegum stað í Hafnarfirði. 

Skrifað undir viljayfirlýsingu við Icelandair | Fréttir | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)