Fréttir  • IMG_7726

Hugheilar hátíðarkveðjur

23. des. 2016

Gleðilega hátíð kæru vinir 

Á fyrsta sunnudegi aðventunnar var ég fenginn til að flytja hugvekju í Víðistaðakirkju sem ég og gerði með brosi á vör og þakklæti í huga. Nú á Þorláksmessudegi langar mig að deila þessari hugvekju með ykkur um leið og ég sendi ykkur mínar innilegustu jólakveðjur.


Hugvekja á aðventunni

Það eru nokkur orð sem mér eru afar hugleikin um þessar mundir. Bæði vegna þess að það er desember og enn eitt árið við það að kveðja og vegna þess samfélags sem ég hef fengið að kynnast hér í Hafnarfirði frá því að ég hóf störf sem bæjarstjóri. Orðin eru þakklæti, virðing, samstarf og einstaklingsframtakið. Mig langar að taka aðeins fyrir þessi innihaldsríku orð og deila hugsunum mínum með ykkur.

ÞAKKLÆTI

Það að vera þakklátur fyrir lífið og tilveruna veitir manni ekki bara hamingju og ákveðinn innri frið heldur líka öryggi. Lífið er ekki endalaus leikur og gleði en þegar uppi er staðið þá er hamingjan nær en margar grunar og leikurinn fólginn í því að leita hamingjunnar á rétta staðnum, nefnilega hjá manni sjálfum. Ég sem bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar er þakklátur fyrir ansi margt í lífinu. Persónulega er ég þakklátur fyrir að vera nokkuð heilsuhraustur, þakklátur fyrir frú mína og fjölskyldu og þær gleðistundir sem mitt fólk veitir mér. Ég hef notið þeirra forréttinda að sinna störfum og verkefnum í lífinu sem liggja á mínu áhugasviði, nú síðast verkefnum sem snúa að því að sjá um reksturinn á sveitarfélagi með tæplega 29.000 íbúum, tæplega 1500 fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum og tæplega 1.800 starfsmönnum. Ég er þakklátur fyrir starf mitt í dag og það sem það gefur mér. Fyrir allt fólkið sem ég hitti á degi hverjum sem hefur með samtali sínu, upplýsingum og leiðbeiningum aðstoðað mig við að skilja innviði samfélagsins hér í Hafnarfirði, samfélagsandann og þá stemningu sem ríkir í sveitarfélaginu. Ég er mjög þakklátur fyrir fólkið mitt hjá bænum, samstarfsfélaga mína og þá færni og þekkingu sem þeir hafa fært mér og þann metnað og dugnað sem þeir leggja í vinnu sína. Saman reynum við að vera til fyrirmyndar í sem flestu tilliti og veita íbúum og fyrirtækjum þá fyrirmyndar þjónustu sem við viljum vera þekkt fyrir að veita. Við getum alltaf gert betur og breytt umhverfi og staða í sveitarfélaginu er að opna á ný tækifæri og tilhögun sem á að vera íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu til heilla. Með þá tilfinningu kveðjum við árið og siglum glaðbeitt inn í nýtt ár full af þakklæti. Að vera þakklátur hefur jákvæð áhrif á lífið og á viðhorf okkar til lífsins. Á sama tíma opnar þakklæti á tækifæri og möguleika sem annars hefðu síður verið sýnilegir.

VIRÐING

Virðing er annað innihaldsríkt orð og gott veganesti í lífinu. Öll eigum við að bera virðingu fyrir okkur sjálfu og fólkinu í kringum okkur, kunna að meta okkur sjálf og aðra og trúa á það góða í öllum. Samfélagið hér í Hafnarfirði og heilt yfir samanstendur af fólki sem er ólíkt í eðli sínu og hegðun og einmitt það gerir samfélagið okkar lifandi, fjölbreytilegt og fullt af áskorunum. Uppeldi, umhverfi, reynsla, atburðir og þekking eru til þess fallin að setja sitt mark á fólk og fer það eftir styrk hvers og eins hversu sterk og mikil áhrifin verða á líðan, hegðun og hugsun. Víða ríkir ófriður sem sér ekki fyrir endann á, fjöldi fólks á flótta um allan heim, stór hópur fólks sem á ekki til hnífs og skeiðar og fjöldi sem þjáist af einhvers konar vanlíðan og sjúkdómum. Það er margt brotið í samfélaginu okkar og margir sem því miður líða skort og kvalir. Það er líka margt sem vel er gert í samfélaginu okkar og hópar fólks sem hafa það mjög gott og una sáttir við sitt. Við þurfum að bera virðingu fyrir öllum þjóðfélagshópum, fyrir ólíkri stöðu einstaklinganna og reyna eftir megni að aðstoða og hjálpa þeim sem minna mega sín. Stundum þurfa þessir einstaklingar bara leiðsögn og hvatningu í lífinu, að upplifa þakklæti fyrir framlag sitt og virðingu fyrir það eitt að vera til. Í starfi mínu hitti ég alla þjóðfélagshópa sem hafa sitt til málanna að leggja, hafa sínar áherslur og skoðanir og vilja koma sínu á framfæri. Það er mitt hlutverk að bera virðingu fyrir skoðunum allra hópa og finna leiðir til að sigla þann sjó sem líklegastur er til að vera sem flestum fær og í takt við þær áherslur sem sveitarfélagið hefur sett sér. Við verðum að hjálpast að, hjálpa þeim sem minna mega sín og telja þeim trú um að gildi þeirra og virðing eru ekki minni eða óverðmætari en gildi og virðing allra annarra.

SAMSTARF

Við búum við þau forréttindi að búa á landi sem býr yfir dýrmætum auðlindum, er friðsælt og það fallegt og spennandi að ferðamenn eru í auknu mæli farnir að sækja landið heim. Við verðum að fara vel með landið okkar og ganga um það og umhverfið af virðingu og væntumhyggju. Þetta á líka við um Hafnarfjörðinn. Fjörðurinn okkar býr yfir miklum möguleikum sem við verðum í sameiningu að varða vel og marka leiðina að þeim tækifærum sem líklegust eru til að koma heildinni til góða. Við viljum halda í sögu okkar og menningu, heimilislega yfirbragðið og þar með vinalega bæinn í Hrauninu sem m.a. nýtur þeirra forréttinda að búa yfir hvorutveggja heillandi hafnarsvæði og lifandi miðbæ sem önnur sveitarfélög horfa með öfundaraugum til. Saman þurfum við að taka ákvarðanir um framtíðina, vinna að því að halda bænum okkar hreinum og fínum, tryggja með samfélagsumgjörðinni að íbúar og fyrirtæki lifi og starfi í Hafnarfirði til lengri tíma og að nýtt fólk og fyrirtæki sé reiðubúið að koma til okkar. Samfélagið í heild og þar með íbúar og fyrirtæki eiga að taka þátt í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins, koma skoðunum sínum á framfæri, sækja fundi og samtal um það sem skiptir það máli í sveitarfélaginu og vera þannig samfélagslega ábyrg og full af áhuga um umhverfi sitt. Þarna liggur okkar samfélagsauður – í fólkinu sjálfu.

EINSTAKLINGSFRAMTAKIÐ

Framtak hvers og eins einstaklings verður seint metið til fjár. Við búum það vel hér í Hafnarfirði að í samfélaginu býr og starfar fjöldi einstaklinga sem hefur áhuga á nærumhverfi sínu og vill taka þátt í uppbyggingu þess af einskærum áhuga og hugsjón. Ég hef fulla trú á því að við, öll sem eitt, viljum sjá Hafnarfjarðarbæ vaxa og dafna sem aldrei fyrr og verða öðrum sveitarfélögum góð fyrirmynd á ýmsum sviðum. Þetta tekst með samhentu átaki okkar allra, jákvæðni og því að horfa á nærumhverfið með ný tækifæri og möguleika í huga. Þarna skiptir framtak hvers og eins einstaklings gríðarlega miklu máli og langar mig að nota tækifærið hér og hrósa öllu því frábæra fólki sem hefur með sjálfboðavinnu sinni og framkvæmdagleði hrint í framkvæmd ótrúlegustu verkefnum sem eru bæjarfélaginu til mikils sóma. Ég horfi með mikilli bjartsýni fram á veginn og mun sigla af eftirvæntingu inn í nýtt ár tilbúinn að takast á við gamlar og nýjar áskoranir og verkefni. Megi nýtt ár færa mér og góðum samstarfsfélögum mínum fleiri samtöl við áhugasama bæjarbúa sem búa yfir nýjum hugmyndum og sjá tækifæri og möguleika í sínu nærumhverfi, heimsóknir til sem flestra fyrirtækja hér í Hafnarfirði með kynningu á starfsemi þeirra og framtíðaráformum, áhugaverð og skemmtileg verkefni og umfram allt glaðbeitta bæjarbúa sem er umhugað um nærumhverfi sitt og nágranna.
Ég sendi fjölskyldu og vinum, íbúum og starfsmönnum hugheilar hátíðarkveðjur með von um notalegar stundir yfir hátíðarnar. Ég þakka góðar stundir á árinu sem er að líða og horfi með tilhlökkun til þeirra verkefna sem nýtt ár mun færa mér, fjölskyldu minni og okkur starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar.
Góðar og gleðilegar jólastundir!