Fréttir  • 13000MetrarHafnarfjordur

13.000 metrar í Hafnarfirði gegn ofbeldi á börnum

23. ágú. 2019

UNICEF á Íslandi boðaði í vor byltingu fyrir börn með átaki gegn ofbeldi undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn. Byltingin hefur síðustu daga borist með Einari Hansberg crossfit kappa um land allt með heldur óvenjulegum hætti. Þannig hefur Einar, fjölskylda hans og vinir, stoppað í 36 sveitarfélögum á einni viku þar sem Einar hefur róað, skíðað eða hjólað 13.000 metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Einar tók 13.000 metrana fyrir framan Ráðhús Hafnarfjarðar í dag.

Hafnarfjarðarbær fagnar átaki UNICEF á Íslandi og mun markvisst halda áfram að leggja sitt af mörkum til að styðja baráttuna gegn ofbeldi. Sveitarfélagið tekur ákall UNICEF um að setja fram skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi gagnvart börnum alvarlega og er þegar farið að stað með vinnu sem miðar að því að kortleggja hvernig verklagið er þegar upp kemur grunur um ofbeldi gagnvart börnum.

Mikil áhersla lögð á velferð barna og ungmenna

Hafnarfjarðarbær og UNICEF gerðu með sér samning síðastliðið vor um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélag sem UNICEF og umboðsmaður barna hafa þróað. Samhliða innleiðingunni mun Hafnarfjarðarbær vinna að þróunarverkefni í tengslum við réttindi barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi og er sú vinna hafin. „Sveitarfélagið leggur mikla áherslu á velferð barna og ungmenna og má nefna að komin er góð reynsla á teymi sem tekur á heimilisofbeldismálum í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og starfshópur er starfandi um forvarnir og fagráð varðandi mál sem tengjast ofbeldi hjá íþrótta- og tómstundafélögum. Einnig má nefna að Hafnarfjarðarbær, í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, stendur að þróunarverkefni til eins árs sem vinnur að forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum sem ætlaðar eru að auka velferð barna og unglinga og draga úr áhættuhegðun þeirra“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, en hún var ein þeirra sem mætti til að hvetja Einar áfram, sýna átakinu stuðning og skrifa undir ákall UNICEF.

Fjölmenni mætti við Ráðhús Hafnarfjarðar til að hvetja Einar áfram og lýsa yfir stuðningi við ákall UNICEF sem hefur það yfirlýsta markmið að vekja athygli á því hversu alvarlegt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er, þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina og búa til breiðfylkingu fólks sem heitir því að bregðast við ofbeldi gegn börnum. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund manns skrifað undir ákall UNICEF.