Fréttir
  • HreinsunardagarMai2016

Hreinn Hafnarfjörður

27. apr. 2016

Skúra | Skrúbba | Bóna

Við erum sannarlega dottin í hreinsunargírinn. Síðustu dagar hafa verið nýttir í sópun gatna og göngustíga í Hafnarfirði og nú er komið að samfélagsátaki í hreinsun þar sem allir íbúar, nemendur og starfsmenn fyrirtækja og stofnana á svæðinu eru hvattir til virkrar þátttöku. Með samhentu samfélagsátaki í hreinsun þar sem allir hugsa um sitt nærumhverfi þá verður Hafnarfjörður hreinn og fínn á stuttum tíma.

„Skúra burtu skítinn, svo einhver vilji lít'inn“ *  

Árvisst hreinsunarátak í Hafnarfirði verður dagana 2. – 16 maí. Þessa daga verða bæjarstarfsmenn á fullu við hreinsun víðsvegar um Hafnarfjörð og samhliða er skorað á íbúa að taka virkan þátt með því að huga að hreinsun innan sinna lóðarmarka og í sínu nánasta umhverfi. Margar hendur vinna létt verk. Þessi tími árs er oft ansi mislitur á margan máta, jörð grá og gul eftir ágang vetrar og rusl á víð og dreif sem leynst hefur undir snjó til þessa. Við búum vel hér í Hafnarfirði með okkar fallega miðbæ, heillandi hafnarsvæði, samstillt íbúa- og fyrirtækjahverfi að ógleymdum náttúruperlum okkar sem finna má innan og utan byggðar. Alls þessa vilja íbúar njóta og með stolti bjóða fjölskyldu, vinum og vandamönnum í menningar- og skemmtiferðir í fjörðinn fagra. Í auknu mæli eru ferðamenn einnig farnir að sækja bæinn heim og mun umferð þeirra aukast á komandi misserum.  Við viljum að bærinn okkar sé hreinn og fínn. Það gerist ekki nema með samhentu átaki allra.

Uppskeruhátíð hreinsunar

Þann 12. maí eru starfsmenn fyrirtækja og stofnana ásamt nemendum og kennurum allra skólastiga í Hafnarfirði hvattir til að rýna í sitt nærumhverfi og taka sérstaklega til hendinni við hreinsun. Gámum verður komið fyrir á þremur stöðum í Hafnarfirði og eru gámar einkum hugsaðir fyrir losun á timbri og járni frá fyrirtækjum á hverju svæði fyrir sig. Gámar verða á svæðinu í tvo heila daga – fimmtudaginn 12. maí og föstudaginn 13. maí.  Í lok dags þann 12. maí frá kl. 18 - 19 verður boðið upp á spjall og léttar veitingar við Ásvallalaug.  Allir bæjarbúar og starfsmenn fyrirtækja og stofnana velkomnir í létta veislu eftir vel unnin hreinsunarstörf.

Sjá kort með staðsetningu gáma hér

Vorhreinsun – garðaúrgangur sóttur heim

Starfsmenn bæjarins verða á ferð um bæinn dagana 16. – 22. maí. Þannig verður garðaúrgangur í Norðurbæ, Vesturbæ, Hraunum og miðbæ sóttur heim 16. maí, í Setbergi Kinnum og Hvömmum 18. maí og í Áslandi, á Völlum og Holti 22. maí.  Íbúar á þessum svæðum eru hvattir til að vera búnir að setja garðaúrgang út fyrir lóðarmörk fyrir þessa settu hreinsunardaga í hverju hverfi fyrir sig. Athugið að allur garðaúrgangur þarf að vera í pokum og höfum hugfast að hæfilega þungir pokar auðvelda starfsmönnum hreinsunarstörfin. Bæjarbúar eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins.  Að vorhreinsun lokinni verða eigendur og lóðarhafar sjálfir að fara með garðaúrgang til Sorpu – upplýsingar um afgreiðslutíma er að finna á heimasíðu Sorpu: www.sorpa.is  Tilvalið er einnig að safna garðaúrgangi yfir sumartímann saman í safnhaug á góðum stað í garðinum og nýta til moltugerðar.

Sjá kort með hverfaskiptingu og settum degi hér

Hreinsum og fegrum Fjörðinn okkar! 

*Tilvísun í lag Ólafs Hauks Símonarsonar - Ryksugan á fullu -  er notuð með góðfúslegu leyfi höfundar.