Fréttir
  • Jólaljós Strandgata
    Jólaljós Strandgata

Höfum gaman saman í Hafnarfirði - þar sem hjartað slær

26. nóv. 2020

Huggulegasti heimabær höfuðborgarsvæðisins

Jólablað Hafnarfjarðar er að detta inn um lúgur Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar í Garðabæ og Kópavogi þessa dagana. Jólablaðið hefur þann tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir íbúum og vinum Hafnarfjarðar sem hlýlegan bæ sem hefur allt til alls þegar kemur að upplifun, verslun og þjónustu. Undanfarin ár hefur fjöldi nýrra þjónustuaðila og verslana séð tækifæri til opnunar og vaxtar í stækkandi samfélagi og nær þessi vöxtur ekki bara til miðbæjar heldur ekki síður til annarra hverfa bæjarins eins og sjá má í umfjöllun og efni jólablaðsins. Jólablaðið er aðgengilegt í Fjarðarkaupum, Firði verslunarmiðstöð, þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar, Bókasafni Hafnarfjarðar og á kaffihúsum miðsvæðis.   

Lykillinn er áhugi og hvatning samfélagsins

Þannig virðist m.a. hugmyndafræðin sem liggur að baki kaupmanninum á horninu, sælkerabúða og listsköpunar vera að skila sér í opnun slíkra verslana og greinilegt að Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar um land allt kunna vel að meta öðruvísi og einstakar verslanir í bland við aðra mikilvæga og hefðbundna verslun og þjónustu. Lykillinn er áhugi og hvatning samfélagsins m.a. með verslun í heimabyggð. Markaðsstofa Hafnarfjarðar, í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, hefur lagt áherslu á að kynna Hafnarfjörð sem heillandi bæ til búsetu, atvinnu og rekstrar. Í jólablaðinu 2020 er að finna upplýsingar um einstaka staði, sérstöðu bæjarins, Jólaþorpið í Hafnarfirði, fólkið sem bæinn byggir, gómsætar uppskriftir auk aðventukveðju frá bæjarstjóra sem hvetur Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að hafa það gaman saman á aðventunni í Hafnarfirði. 

Höfum gaman saman í Hafnarfirði - þar sem hjartað slær 

Hafnarfjörður hefur líklega aldrei verið jólalegri og hlýlegri á aðventunni en einmitt nú. Hvít og mild jólaljósin hafa yljað og glatt okkur íbúa og gesti bæjarins undanfarnar vikur en ákveðið var að setja ljósin upp í miðbænum mun fyrr en áður. Viðbrögðin voru ánægjuleg og sannfærðu okkur um að hafi einhvern tíma verið þörf á að lýsa upp umhverfið þá var það á þessu hausti. Stórkostlegt er að sjá hve bjartur og fagur bærinn er nú í skammdeginu.

RosaBaejarstjori

Við leggjum mikið upp úr því að hingað til Hafnarfjarðar sé notalegt að koma á aðventunni, njóta og hafa gaman saman. Hafnarfjörður er orðinn sannkallaður jólabær þar sem fjölskyldur og vinahópar upplifa hlýlega og afslappaða jólastemningu. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að sjá hve margir sækja okkur heim úr nágrannasveitarfélögunum og sækja í þann jólaanda sem ríkir í bænum. Jólahúsin í jólaþorpinu og skreytingarnar í kringum það hafa jafnan mikið aðdráttarafl. Þar er hægt að kaupa listmuni og handverk, sælkeravörur og annað fallegt í jólapakkana. Og í ljósi aðstæðna munu nú óvæntir viðburðir skjóta upp kollinum á hinum ýmsu tímum og stöðum í miðbænum í stað auglýstrar skemmtidagskrár eins og venja er. Lystigarðurinn Hellisgerði hefur í ár verið fallega skreyttur og prýddur ljúfum jólaljósum. Við munum geta upplifað sannkallað jólaævintýri í þessum fallega garði, innan um hraun og kletta í vetrarbúningi.

Verið velkomin heim í Hafnarfjörð þar sem jólahjartað slær og hlýlegt andrúmsloft ræður ríkjum.

Með jólakveðju,
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri