Fréttir
  • IMG_6531

Hlaðvarpið VITINN - nýr þáttur er kominn í loftið!

21. sep. 2019

Hafnarfjarðarbær kynnti nýlega til sögunnar nýja hlaðvarpið Vitann. Í fyrsta þætti Vitans ræddi Sigurjón Ólafsson, sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs við Björn Pétursson bæjarminjavörð um Byggðasafn Hafnarfjarðar. Nú er annar þáttur kominn í loftið, spjall við Evu Michelsen verkefnastjóra Lífsgæðaseturs St. Jó. Ráðgert er að setja nýjan þátt í loftið vikulega.  

Í Vitanum er spjallað við áhugaverða einstaklinga sem starfa í þágu bæjarins. Þannig er tekin fyrir þjónusta sveitarfélagsins, áhugaverð þróunarverkefni og viðfangsefni á fjölbreyttu sviði. Hlaðvarpið opnar á ítarlegri umfjöllun um einstaka verkefni, þjónustu og mál sem eru mikið í umræðunni hverju sinni. Hægt er að nálgast alla þætti Vitans HÉR en einnig á hlaðvarpsveitum á borð við Spotify , Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að því að gera Vitann aðgengilegan á fleiri veitum.

Þáttur #2: Eva Michelsen, verkefnastjóri Lífsgæðaseturs St. Jó

IMG_6534

Í öðru viðtali Vitans ræðir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri, við Evu Michelsen, verkefnastjóra Lífsgæðaseturs St. Jó en þann 5.september síðastliðinn var húsnæði St. Jó opnað að nýju eftir 6 ára óvissu. Í dag eru fimmtán fyrirtæki starfandi innan veggja setursins sem öll eiga það sammerkt að starfa í þágu samfélagins á sviði heilsueflingar og bættra lífsgæða. Eva rekur hér forsöguna og segir frá framkvæmdunum sem hafa staðið yfir síðustu tvö árin. Þessi fyrsti áfangi í uppbyggingu St. Jó sem nú hefur verið formlega opnaður, þykir einstaklega vel lukkaður og tilfinningin sem skapast hefur með tilkomu flottra fyrirtækja og félagasamtaka einstök. Á sýningu í anddyri St. Jó hefur sögu St. Jósepssystra í húsinu verið gerð mjög góð skil. Sýningin er öllum opin og velkomið að kíkja í kaffi í „hjartað“ samkomustað starfsmanna og gesta fyrir miðju þeirrar hæðar sem nú hefur verið opnuð.

Upptökudagur: 6. september 2019.