Fréttir
  • _MG_9069

Hjólum í vinnuna - tökum þátt!

3. maí 2017

Heilsu- og hvatningarverkefnið "Hjólað í vinnuna" hófst í dag og mun standa yfir til og með 23. maí. Meginmarkmið verkefnisins er að vekja athygli á virkum, heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum ferðamáta.  Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu þessar þrjár vikur. 

Hjólað í vinnuna fer fram dagana 3. – 23. maí 2017

Það er einlæg von þeirra sem standa að Hjólað í vinnuna að verkefnið ýti sem flestum af stað í reglulega hreyfingu og hvetji fólk til að nota virkan ferðamáta. Allir geta tekið þátt í Hjólað í vinnuna svo framarlega sem þeir nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu. Þeir sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð. Þátttaka í "Hjólað í vinnuna" hefur margfaldast síðan að verkefnið fór af stað árið 2003. 

Að skrá sig til leiks

Til að skrá sig til leiks í Hjólað í vinnuna er smellt á gula eða bleika kassann í hægra horni efst á síðu verkefnisins - SJÁ HÉR  Þeir sem eiga aðgang síðan í fyrra eða síðan í Lífshlaupinu velja Innskráning en aðrir velja Nýskráning. Athugið að aðgangur að Lífshlaupinu virkar líka á Hjólað í vinnuna. Kerfið leiðir þátttakendur í gegnum skráningarferlið. 

Einnig er hægt er að velja um að nota Facebook aðgang til að skrá sig inn eða til að nýskrá sig. 


Til að vinnustaður skráist sem sér vinnustaður og í réttan flokk, verður liðsstjóri að "lána sína kennitölu" annars skráist vinnustaðurinn ekki í sér flokk heldur sem lið með öðrum vinnustöðum undir sömu kennitölu. Kennitalan er aðeins notuð til þess að aðgreina vinnustaði og kemur bara fram hjá umsjónarmönnum verkefnisins. Við skráningu er treyst á heiðarleika og samvisku þátttakenda.

Sjá reglur fyrir verkefnið HÉR

Keppnisgreinarnar eru tvær:

  1. Vinnustaðakeppni þar sem keppt er um flesta þátttökudaga (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna á vinnustaðnum)
  2. Kílómetrakeppni þar sem keppt er á milli liða um annars vegar flesta kílómetra og hinsvegar hlutfall kílómetra m.v. fjölda liðsmanna í liðinu

Hver þátttakandi ber ábyrgð á sínu öryggi. Hjólagarpar og línuskautafólk er hvatt til að nota hjálma og aðrar varnir, að sjálfsögðu að fara eftir umferðarlögum og taka tillit til annarra vegfarenda. 

Notum virkan ferðamáta!

Allar upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu þess - sjá HÉR


Metnaðarfull heilsustefna fyrir Heilsubæinn Hafnarfjörð

Aukin þátttaka og hvatning til þátttöku í allra handa verkefnum er meðal þess sem lögð er áhersla á í nýlegri Heilsustefnu Hafnarfjarðar og aðgerðaráætlun hennar. Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. M.a. er lagt til aukið samstarf við félagasamtök, fagfólk, áhugafólk og heilsugæslu vegna heilsueflingar og vellíðunar og að upplýsingagjöf verði aukin varðandi þjónustu sem er í boði á því sviði. Að byggður verði upp samstarfsvettvangur viðkomandi aðila þar um, með þátttöku ungmennaráðs, öldungaráðs, ráðgjafaráðs, nýbúaráðs og hverfisráðs þar sem meðal annars verði unnið að verndandi þáttum gegn kvíða og vanlíðan. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum. 

Sjá heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar HÉR